Aðsend grein – Aðeins um handbolta og útsendingar
Ingólfur Hannesson,
höfundur er ráðgjafi HSÍ.
Mjög áhugaverðu keppnistímabili handboltamanna lauk nú í maí eftir æsispennandi úrslitakeppni. Mikið var rætt um útsendingar í Handboltapassanum og Sjónvarpi Símans frá mótinu og voru/eru vissulega skiptar skoðanir á þessu fyrirkomulagi. Almennt er þó hægt að fullyrða að aldrei fyrr hafi jafn margir fylgst með útsendingum frá Íslandsmóti í handbolta. Meðal annars voru 50 þúsund áhorfendur í uppsöfnuðu áhorfi á úrslitakeppnisleik í opinni dagskrá í Sjónvarpi Símans og oft var meðaláhorf (þ.e. þeir sem að meðaltali horfðu á heilan leik) um 16 þúsund. Það er margfalt það sem áður hefur sést þegar útsendingar voru svotil einvörðungu í læstri dagskrá. Að auki hefur RÚV sinnt bikarkeppninni af miklum metnaði og fjöldi útsendinga þar hefur sennilega aldrei verið meiri.
17 íþróttahús myndavélavædd
Allir leikir í tveimur efstu deildum karla og kvenna voru síðan gerðir aðgengilegir í Handboltapassanum og það er nýlunda, sem margir glöddust yfir. Að vísu voru margvíslegir hnökrar á útsendingum fyrstu vikurnar, en það kom einkum til af allt of stuttum undirbúningstíma og þróun gervigreindartækninnar sem notast var við. HSÍ tókst síðan á tímabilinu að myndavélavæða 17 íþróttahús og sú fjárfesting á eftir að skila sér margfalt á næstu árum. Fyrstu áætlanir gerðu ráð fyrir að hægt væri að ná um 2 þúsund áskrifendum á fyrsta ári, en þegar upp er staðið eru þeir tvöfalt fleiri eða rétt rúmlega 4 þúsund, sem er ótrúlegur árangur. Til samanburðar má nefna að 13 þúsund eru áskrifendur að stafrænni handboltarás sænsku deildasamtakanna, en þyrftu að vera amk 100 þúsund ef Svíar hefðu náð sambærilegum árangri og HSÍ (og það á aðeins einu ári).
Hefur vakið athygli
Að auki hefur nálgun og árangur HSÍ víða vakið athygli, m.a. hjá Handboltasambandi Evrópu, EHF, sem hefur fengið upplýsingar um þessi mál og m.a. falast eftir fulltrúa Íslands í framleiðslu- og þróunarnefnd sambandsins. Þar á bæ þykir þetta afar merkileg þróun, að landssamband taki sjálft yfir útbreiðslu og stýri nýtingunni með því að taka nýjustu (gervigreindar-) tækni í sína þrjónustu. Þetta er reyndar leið sem mörg samtök í fótbolta hafa farið, t.d. ensku deildasamtökin sem stýra öllu slíku í samstarfi við leiðandi fyrirtæki á þessu sviði. Að vísu sakna margir hliðarumfjöllunar (uppgjörsþættir o.þ.h.), en það stendur væntanlega til bóta. Sama má segja um sýnileika handboltans á samfélagsmiðlum. Þar þarf að gera átak.
Spennandi tímar framundan
Fjárhagslega hefur þetta verið þungur róður fyrir HSÍ á þessu fyrsta ári með nýju fyrirkomulagi (einkum varðandi framleiðslukostnað leikjanna í opinni dagskrá), en ef horft er framá veginn má fullyrða að innan 1-2 ára skapi Handboltapassinn, og opnar útsendingar hjá Símanum, umtalsverðar tekjur fyrir sambandið og félögin. Að auki munu HSÍ og félögin eiga sjálf allan myndbúnað og geta m.a. gert keppnir í yngri flokkum aðgengilegar, jafnvel næsta vetur, en þá stendur til að fjölga myndavélum í húsum til að gera slíkt kleift. Þá er að renna upp sá tími að gervigreindin ráði 100% við útsendingar með mörgum myndavélum og að auki er á markaði tækni fyrir sjálfvirkar endursýningar, sem breytir einnig miklu.