- Auglýsing -
Íslendingarnir þrír hjá danska úrvalsdeildarliðinu Ribe-Esbjerg létu til sín taka í kvöld þegar liðið vann stórsigur á Nordsjælland á heimavelli, 35:23.
Ágúst Elí Björgvinssson fór á kostum í markinu. Hann varði 14 skot, 39% hlutfallsmarkvarsla. Elvar Ásgeirsson skorað tvö mörk en gaf hvorki fleiri né færri en átta stoðsendingar. Arnar Birkir Hálfdánsson skoraði einnig tvö mörk en hafði sig hægan í stoðsendingunum.
Ribe-Esbjerg var með yfirburði í leiknum frá upphafi til enda. Forskot liðsins var átta mörk að liðnum fyrri hálfleik, 17:9, og óhætt að segja að glatt hafi verið á hjalla í Blue Water Dokke, heimavelli liðsins, þar sem boðið var upp á grillaðar pylsur fyrir leik og drykki án endurgjalds í leikslok.
Þetta var annar sigur Ribe-Esbjerg í þremur viðureignum og situr liðið í sjötta sæti af 14 liðum.
- Auglýsing -