Arnar Freyr Arnarsson kom á ný inn í íslenska landsliðið í handknattleik fyrir sigurleikinn í Bosníu á miðvikudaginn, 34:25, eftir nokkurra mánaða fjarveru vegna meiðsla. Arnar Freyr mætir galvaskur til leiks í Laugardalshöll í dag þegar landsliðið lýkur undankeppni EM 2026 með viðureign við Georgíu í Laugardalshöll. Flautað verður til leiks klukkan 16.
Ísland – Georgía – miðasala.
„Við verðum að mæta af fullum krafti og klára þetta eins og menn, nýta tímann saman og halda áfram að prófa og þróa eitthvað nýtt,“ sagði Arnar Freyr í samtali við handbolta.is í aðdraganda leiksins í dag en reiknað er með að fólk streymi á leikinn og styðji íslenska landsliðið í lokaleiknum í undankeppninni.
Ísland vann fyrri viðureignina við Georgíu í undankeppninni, 30:25, þegar leikið var í Tiblisi í byrjun nóvember.
Bæði lið eru komin áfram í lokakeppni EM. Íslenska liðið hefur unnið riðilinn og georgíska liðið er þegar öruggt um annað sætið sem einnig gefur farseðil á EM í janúar á næsta ári.
„Við ætlum að vinna riðilinn með fullu húsi stiga,“ segir Arnar Freyr Arnarsson.
Lengra viðtal við Arnar Frey er að finna í myndskeiði hér fyrir ofan.
Undankeppni EM karla “26: úrslit leikja og staðan
A-landslið karla – fréttasíða.