- Auglýsing -
Aftur eru Bjarni Ófeigur Valdimarsson og samherjar í IFK Skövde lentir undir í einvígi sínu við Ystads IF í baráttunni um sænska meistaratitilinn í handknattleik. Í kvöld töpuðu þeir með fjögurra marka mun, 31:27, á heimavelli í þriðju viðureign liðanna. Ystads IF hefur þar með tvo vinninga og þarf einn til viðbótar svo að liðið verði sænskur meistari í fyrsta sinn í þrjá áratugi.
Skövde var tveimur mörkum yfir að loknum fyrri hálfleik, 16:14. Allir leikirnir í einvíginu hafa unnist á útivelli.
Næsta viðureign liðanna fer fram í Ystad á föstudaginn og verður Skövde þá að vinna til að kría út oddaleik á heimavelli. Skövde hefur aldrei unnið sænska meistaratitilinn í handknattleik karla.
Bjarni Ófeigur skoraði þrjú mörk í fimm skotum í kvöld, var tvisvar sinnum vísað af leikvelli. Einnig átti Bjarni tvær stoðsendingar. Jack Thurin og Matias Helt Jepsen skoruðu fimm mörk hvor fyrir Sködevdliðið og voru markahæstir. Julius Lindskog skoraði einnig fimm mörk fyrir Ystad. Gamla brýnið Kim Andersson skoraði þrisvar sinnum.
- Auglýsing -