Afturelding lagði Gróttu í fyrsta leik beggja liða á UMSK-móti kvenna í handknattleik í Hertzhöllinni á Seltjarnarnesi í gærkvöld, 33:26. Mosfellingar voru talsvert sterkari og höfðu m.a. tíu marka forsystu að loknum fyrri hálfleik, 19:9.
UMSK-mótið hófst á fimmtudaginn með sigri Stjörnunnar á HK í Kórnum, 34:30.
Karlotta Kjerúlf Óskarsdóttir, sem gekk til liðs við Gróttu frá Val í sumar, var markahæst með fimm mörk og Tinna Valgerður Gísladóttir, sem sneri á ný heim í Gróttu í sumar eftir dvöl hjá Fram, var næst með fjögur mörk.
Susan Ines Barinas Gamboa var atkvæðamest hjá Aftureldingu með sjö mörk. Markadrottning Grill 66-deildar á síðustu leiktíð, Sylvía Björt Blöndal, skoraði 5 mörk eins og Ragnheiður Hjartardóttir.
Næsti leikur í kvennaflokki á UMSK-mótinu er áætlaður á mánudaginn að Varmá þegar Stjarnan sækir Aftureldingu heim. Eftir þá viðureign stendur til að gera hálfsmánaðar hlé á mótinu.
Einn leikur fer fram á UMSK-móti karla í dag. HK og Stjarnan eigast við í Kórnum klukkan 11.