Afturelding fékk Gróttu í heimsókn að Varmá fyrr í dag í Olísdeild karla. Fyrir leikinn var Afturelding með 17 stig en Grótta með 10 stig í 10. sæti. Heimamenn byrjuðu leikinn af meiri krafti og komust í 7-3 eftir 12 mínútna leik. Seltirningar náðu að vinna sig aftur inn í leikinn og minnkuðu muninn í eitt mark fyrir leikhlé, 13-12.
Afturelding var áfram skrefi framar í byrjun seinni hálfleiks og náði mest fjögurra marka forskoti, 20-16, um miðbik síðari hálfleiks. Leikmenn Gróttu gáfust þó ekki upp og söxuðu forskotið niður í eitt mark þegar tæpar 10 mínútur voru eftir af leiknum. Mosfellingar reyndust seigari á lokamínútum og báru þriggja marka sigur úr býtum, 30-27. Með sigrinum fer Afturelding upp að hlið FH í 3. sæti með 19 stig. FH er í öðru sæti, einnig með 19 stig, en á leik til góða.
Þorsteinn Gauti Hjálmarsson og Blær Hinriksson voru markahæstir hjá Aftureldingu með sex mörk hvor. Í markinu hjá Aftureldingu varði Brynjar Vignir Sigurjónsson fimm skot og Bjarki Snær Jónsson þrjú skot.
Birgir Steinn Jónsson var markahæstur leikmanna Gróttu með níu mörk. Stefán Huldar Stefánsson varði átta skot í marki Gróttu.
Haukar sterkari
Á Hlíðarenda tók Valur á móti toppliði Hauka. Fyrri hálfleikur var fjörugur og hafði Valur góð tök á leiknum framan af. Lengi vel voru Valsmenn með nokkurra marka forskot á Hauka en gestirnir spýttu í undir lok fyrri hálfleiks, náðu að jafna metin í 17-17 og þannig stóðu leikar í hálfleik.
Í seinni hálfleik voru það Haukar sem tóku völdin og náðu mest sex marka forystu, 24-30, þegar fjórar mínútur voru til leiksloka. Að lokum voru það gestirnir úr Hafnafirði, sem tryggðu sér tvö stig með fjögurra marka sigri, 28-32.
Adam Haukur Baumruk skoraði sjö mörk fyrir Hauka og Stefán Rafn Sigurmannsson sex. Björgvin Páll Gústavsson varði sjö skot og Andri Páll Sigmarsson sex fyrir Hauka.
Anton Rúnarsson var markahæstur hjá heimamönnum með sjö mörk. Stórleikur Martin Nágy í marki Vals dugði skammt en hann varði alls 16 skot, 9 í fyrri hálfleik, þar af eitt vítakast.
Haukar eru nú með 25 stig á toppnum eftir 15 umferðir en Valur er með 17 stig í fimmta sæti.