Ágúst Þór Jóhannsson, sem var á laugardag útnefndur þjálfari ársins 2025 af Samtökum íþróttafréttamanna, er þekktur fyrir að slá á létta strengi. Á því var engin breyting í þakkarræðunni sem hann hélt eftir útnefninguna.
„Jæja, góða kvöldið. Ég átti nú ekki endilega von á þessu og var ekki með neina ræðu tilbúna. En það er ekki eins og ég hafi hatað míkrafóninn hingað til þannig að ég hlýt nú að ná að bjarga mér einhvern veginn út úr þessu,“ sagði Ágúst Þór í beinni útsendingu á RÚV og uppskar hlátur viðstaddra.
Undir hans stjórn varð kvennalið Vals Evrópubikar-, Íslands- og deildarmeistari. Ágúst Þór sagði það gríðarlegan heiður að hafa verið kjörinn þjálfari ársins og minntist sérstaklega á þátt frábærra leikmanna sinna í árangrinum sem náðist.
Ágúst Þór kjörinn þjálfari ársins
„Situr í mér að tapa bikarnum“
„Þetta voru leikmenn sem lögðu gríðarlega mikla vinnu á sig. Að verða Evrópumeistari er ekki auðvelt. Við spiluðum tólf leiki og töpuðum einungis einum þeirra. Þetta voru leikir á móti erfiðum liðum frá Spáni, Slóvakíu, Tékklandi, Svíþjóð og fleiri stöðum.
Við töpuðum ekki 41 leik í röð. Svo urðum við Íslandsmeistarar, tókum úrslitakeppnina þar án þess að tapa leik og urðum deildarmeistarar líka. Það situr svo sem í mér að tapa bikarnum en það er eins og það er.“
Ágúst Þór hrósaði því næst þjálfarateymi sínu. „Jú, jú, eflaust gerði ég eitthvað rétt en ég á ekki helminginn í þessu. Ég var með það frábæra aðila með mér og frábæra leikmenn, þannig að ég er mjög þakklátur fyrir þá sem störfuðu með mér.“
„Maður er náttúrlega kexruglaður“
Hann minntist því næst á Jón Arnar Magnússon, sem var fyrr um kvöldið tekinn inn í Heiðurshöll ÍSÍ, og kallaði eiginkonu sína upp á svið er hann hélt þakkarræðu sína.
„Fyrst að Jón Arnar fór að draga konuna sína hérna upp þá held ég að verði nú að nefna konuna mína, hana Sigríði Unni. Sigríður mín, komdu hérna. Ég þorði ekki öðru, annars fengi maður lesturinn í kvöld.
En eins og Jón sagði, sem er alveg rétt, við erum kannski ekkert skemmtilegustu mennirnir þegar við erum undir pressu og það er fullt að gerast. Ef Jón Arnar heldur að hann sé erfiður og leiðinlegur þá er hann örugglega eins og Laddi miðað við mig.
Maður er náttúrlega algjörlega kexruglaður. Ef einhver hefur haft góð áhrif á mig er það hún, ásamt frábærum leikmönnum og frábæru þjálfarateymi. Að lokum segi ég, ég þakka aftur fyrir mig og einnig fram fyrir mig. Takk,“ sagði Ágúst Þór og uppskar lófatak.
Gísli Þorgeir varð annar – fimm úr handboltanum fengu stig
Evrópubikarmeistarar Vals er lið ársins 2025



