HSÍ og KKÍ hafa uppfært leiðbeiningar sínar vegna áhorfenda á íþróttaviðburðum. Þar hefur verið gerð ein meginbreyting, nú verða börn talin jafnt sem fullorðnir í heildartölu leyfðra áhorfenda.
Einnig hefur verið ákveðið að opið verður á ný fyrir áhorfendur á leiki Íslandsmótsins. Lokað var fyrir áhorfendur á leikjum sem fram fóru á síðasta laugardag og sunnudag eftir að sprenging varð í greindum tilfellum covid19.
Þetta kemur fram í tilkyninngu frá Handknattleikssambandi Íslands í kvöld. Þar segir ennfremur:
„Í framhaldi af þessu hefur HSÍ tekið upp leiðbeiningar frá ÍSÍ vegna áhorfenda á íþróttaviðburðum. Þar kemur fram að heildarfjöldi áhorfenda skal ekki vera meiri en helmningur af stærð áhorfendarýmis í fermetrum, sem þýðir að hver áhorfandi skal hafa 2 fermetra í áhorfendastúku. Þetta er ágætlega útskýrt í leiðbeiningum ÍSÍ, þar má einnig finna viðmiðunartöflu sem sýnir hámarksfjölda áhorfenda m.v. stærð áhorfendarýmis. Þrátt fyrir þessa breytingu verður hámarksfjöldi áhorfenda í einu hólfi áfram 200.“
Nýjar leiðbeiningar HSÍ og KKÍ og leiðbeiningar ÍSÍ má finna á heimasíðu HSÍ.