Þýskaland undir stjórn Alfreðs Gíslasonar tryggði sér í kvöld sæti í úrslitum Evrópumóts karla með sigri á lærisveinum Dags Sigurðssonar í Króatíu, 31:28, í Jyske Bank Boxen í Herning í Danmörku.
Þýskaland mætir annað hvort Íslandi eða Danmörku í úrslitaleiknum á sunnudag og sömu sögu er að segja af Króatíu í leiknum um bronsverðlaunin sama dag.
Þetta er í fyrsta sinn sem Þýskaland kemst í úrslit Evrópumótsins síðan árið 2016, þegar Dagur gerði Þjóðverja að Evrópumeisturum.
Gífurlegt jafnræði var með liðunum framan af fyrri hálfleik og náði Þýskaland fyrst tveggja marka forystu undir lok hálfleiksins. Sá var munurinn að fyrri hálfleik loknum, 17:15, Þýskalandi í vil.
Þjóðverjar stungu af í byrjun síðari hálfleiks
Þjóðverjar hófu síðari hálfleikinn á því að kafsigla Króata. Staðan var orðin 24:17 eftir um átta mínútur í hálfleiknum og róðurinn orðinn þungur fyrir lærisveina Dags.
Þeir gáfust þó ekki upp, minnkuðu muninn hægt og bítandi en komust hins vegar ekki nær Þjóðverjum en tveimur mörkum undir lokin. Munurinn var að lokum þrjú mörk og Alfreð og Þjóðverjar fögnuðu glæstum sigri.
Andreas Wolff stóð sem fyrr fyrir sínu í marki Þýskalands og varði 13 skot, sem gerir tæplega 32% hlutfallsmarkvörslu.
Lukas Zerbe var markahæstur hjá Þýskalandi með sex mörk og Tin Lucin skoraði sömuleiðis sex mörk fyrir Króatíu.


