Justus Fischer leikmaður Hannover-Burgdorf leikur ekki með þýska landsliðinu þegar það mætir íslenska landsliðinu í tveimur vináttuleikjum, öðrum á morgun í Nürnberg og hinum í München á sunnudaginn. Fischer er veikur. Alfreð Gíslason landsliðsþjálfari Þýskalands hyggst ekki kalla inn leikmann í stað Fischer. Alfreð valdi ríflegan fjölda leikmenn til leikjanna og hefur leikmenn sem geta leyst hlutverk Fischer.
21 þúsund miðar seldir
Uppselt er á báða vináttulandsleiki Þýskalands og Íslands. Seldust nærri 21 þúsund aðgönugmiðar á leikina. Svo virðist sem enn sé mögulegt að kaupa VIP-miða á leikinn í München ef marka má miðasölusíðu þýska handknattleikssambandsins.
Keppnishöllin í Nürnberg rúmar 8.200 áhorfendur en í SAP Garden í München eru sæti fyrir 12.500 áhorfendur. Ljóst er að þýska handknattleikssambandið fær töluverðar tekjur af leikjunum.




