- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -

Alfreð vildi ekki trana sér fram!

Alfreð Gíslason, landsliðsþjálfari Þýskalands. Mynd/EPA
- Auglýsing -

Alfreð Gíslason, landsliðsþjálfari Þýskalands, var að sjálfsögðu á meðal áhorfenda í íþróttahöllinni í Magdeburg, þegar Bennet Wiegert og lærisveinar hans tryggðu sér Þýskalandsmeistaratitilinn 2022 á fimmtudaginn með því að leggja Balingen-Weistetten að velli, 31:26.

Forráðamenn Magdeburgar-liðisins óskuðu eftir því við Alfreð, sem var þjálfari Magdenburgar er liðið varð síðast meistari 2001, að hann myndi fara út á völl eftir leikinn og óska Wiegert opinberlega til hamingju. Alfreð, sem var í sviðsljósinu hjá sjónvarpsupptökumönnum fyrir leikinn, sagði að hann vildi ekki á neinn hátt trana sér fram. „Bennet átti einn að njóta augnabliksins með liðinu sínu. Ég sendi honum línu morguninn eftir; óskaði honum til hamingju. Ég veit að hann og strákarnir hans fögnuðu meistaratitlinum vel og Benno á að halda áfram að njóta augnabliksins,“ sagði Alfreð við Handball-World.


Þess má geta að Benno tók við þjálfun Magdeburgarliðsins þegar Geir Sveinsson var látinn taka poka sinn í desember 2015, en hann var þá aðstoðarmaður Geirs. Benno, sem er fæddur í Magdeburg, var 19 ára er hann var í meistaraliði Alfreðs 2001 og hefur hann þakkað föður sínum, Ingolf Wiegert, sem var einn af lykilmönnum landsliðs Austur-Þýskalands, sem varð Ólympíumeistari 1980 í Moskvu og þá varð hann margfaldur meistari með Magdeburg, og Alfreð fyrir þekkingu sína á handknattleik.


Síðan Alfreð hætti hjá Magdeburg 2006 og fór til Gummersbach og tveimur árum síðar til Kiel, hafa komið 9 þjálfarar við sögu.


Geir var áttundi þjálfari Magdeburg á níu árum frá því að Alfreð hætti, eða á tímabilinu 2006-2015.


Alfreð sagði að það hafi verið frábært að sjá Magdeburg verða Þýskalandsmeistara. Það væri búið að vinna mikið og erfitt starf hjá félaginu undir stjórn Benno. Hann og leikmenn hans hafa leikið mjög vel í vetur. „Ég veit vel hvað þessi meistaratitill hefur mikla þýðingu fyrir félagið og fólkið hér í Magdeburg og nágrenni,“ sagði Alfreð, sem er búsettur rétt fyrir utan Magdeburg.

Benno fann rétta tóninn

Alfreð sagði að Benno hafi lagt mikla vinnu í nokkur ár til að ná þessum árangri. „Hann fann rétta tóninn og hefur fylgt honum eftir. Það tók tíma fyrir hann að finna tóninn, sem stuðningsmenn heilluðust af.“


Benno náði að styrkja lið sitt á öllum sviðum, sem hefur skilað árangri.
Það er mikil handboltahefð í Magdeburg; hjá „risanum í austrinu!“ og Magdeburgarliðið eitt af örfáum liðum sem lifðu sameiningu þýsku þjóðarinnar.


Alfreð sagði að sigurinn væri geysilega mikilvægur fyrir Magdeburgarsvæðið.
„Það er mikil uppsveifla í Magdeburg og nágrenni; á öllum sviðum þjóðfélagsins. Íþróttir eru gríðarlega mikilvægar fyrir svæðið og jafnframt fyrir handknattleikinn í austurhlutanum.“

Hörð samkeppni framundan

Alfreð sagði að það væri alltaf erfitt að verja meistaratitil. Samkeppnin er gríðarleg og fer harðnandi. Lið frá Kiel, Flensborg, Berlín verða alltaf í fremstu röð. „Nú bíður Magdeburgarliðinu erfið verkefni. Liðið hefur loksins náð því að leika í Meistaradeild Evrópu. Það mun reyna á liðið og það þarf að auka breiddina í leikmannahópnum, þar sem andstæðingar eru miklu sterkari heldur en hafa verið í Evrópudeildinni.“


Þess má geta að Magdeburg varð sigurvegari í Evrópudeildinni 2021, en tapaði úrslitaleik deildarinnar fyrir Benfica í Portúgal á dögunum í framlengdum spennuleik.


Alfreð hefur trú á að Magdeburg verði áfram í meistarabaráttunni. Stígandinn hefur verið góður hjá liðinu undanfarin fimm ár, eða síðan Benno tók við liðinu. Það hafi verið unnið mjög gott starf í Magdeburg. „Magdeburg á mjög góða möguleika á að blanda sér af fullum krafti í baráttuna næstu árin.

Einvígistímabili Kiel og Flensburg er lokið í bili. Norðanliðin tvö fá meiri mótspyrnu; frá Magdeburg, Füchse Berlín og Rhein-Neckar Löwen er að ná fótfestu á ný.“


Alfreð sagði að aukin breidd sé góð fyrir þýskan handknattleik. Framtíðin sé björt!

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -