- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -

Alltaf bjartsýnn og spenntur á þessum tíma

- Auglýsing -


„Þegar undirbúninginn hefst í janúar þá er maður alltaf bjartsýnn og spenntur,“ segir Snorri Steinn Guðjónsson landsliðsþjálfari í handknattleik karla sem er á leiðinni á sitt annað stórmót sem þjálfari íslenska landsliðsins og það sjöunda þegar tekin eru með í reikninginn heimsmeistaramót hans sem landsliðsmanns.

Rúlla í rétta átt

„Samt er alltaf einhver óvissa þegar við hittumst aftur eftir nokkurt hlé. Hún er sú að fá hlutina til að rúlla af stað og rúlla þá í rétta átt,“ segir Snorri Steinn sem varð að bíta í það súra epli við skipulagningu undirbúningsins að Ómar Ingi Magnússon, sem leikið hefur stórt hlutverk hjá landsliðinu undanfarin sjö ár, meiddist og verður ekki með.

Umturnar engu

„Þegar lykilmaður dettur út þá þarf að föndra aðeins í kringum þá staðreynd án þess að umturna hlutunum. Ég er samt ekkert viss um að hinn almenni áhugamaður verður svo mikið var við breytingar. Mest verðum við að vinna í sömu áherslum og reynum síðan að bæta einhverju nýju við,“ sagði Snorri Steinn ennfremur.

Kynnast styrkleikum Teits Arnar

„Það segir sig svolítið sjálft að þegar lykilmaður dettur út þá breytist eitthvað í leik okkar. Þeir eru kannski ekki svo ólíkir leikmenn, Viggó Kristjánsson og Ómar Ingi. Meira máli skiptir að koma Teiti Erni Einarssyni inn í hlutina. Hann er í fyrsta sinn í hóp hjá mér. Ég þarf aðeins að sjá hvernig hann getur nýst okkur og hverjir hans styrkleikar eru.“

Lengra myndskeiðsviðtal við Snorra Stein er að finna ofar í þessari grein.


Heimsmeistaramótið í handknattleik karla hefst 14. janúar í Danmörku, Króatíu og Noregi. Fyrsti leikur íslenska landsliðsins verður 16. janúar. Áður HM hefst leikur íslenska landsliðið tvo leiki við Svía ytra 9. og 11. janúar. Báðir leikir verða sýndir á RÚV

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -