„Það leit þannig út að við værum svo sannarlega ekki tilbúnir að mæta HK-liðinu sem leggur sig alltaf 110% prósent fram. Við vorum ekki klárir í að inna þá vinnu af hendi sem þurfti til. Þegar menn svo rumska við sér í miðjum leik er öryggið farið út í veður og vind. Sóknar- og skotnýting var eftir því og úr varð mesti barningur,“ sagði Sigursteinn Arndal þjálfari FH eftir nauman sigur á HK, 24:22, í miklum baráttu leik í Olísdeild karla í Kaplakrika í kvöld.
Vörn og markvarsla
„Það jákvæða var þó að menn reyndu mest allan leikinn að spila vörn auk þess sem markvarslan var góð. En því miður voru alltof margir þættir í okkar leik sem voru alls ekki í lagi að þessu sinni,“ bætti Sigursteinn við eftir að hann hafði kastað mæðinni og rætt við sína menn að leikslokum í Kaplakrika í kvöld.
Sigursteinn sagði að varnarleikur HK hafi ekki átt að koma FH-liðinu í opna skjöldu eins og virtist vera.
„Menn lenda í veseni gegn varnarliði sem leikur maður og á mann og sækir menn langt fram á völlinn eins og HK gerði í kvöld ef ekki er rétt brugðist við og boltinn látinn vinna fyrir sig þá hlaðast vandamálin upp eins og gerði hjá okkur í kvöld,“ sagði Sigursteinn og tók undir þá skoðun að lið hans hafi mátt teljast heppið að vinna leikinn.
Gerðum nóg
„Áður en leikurinn var úti þá gerðum við þó nógu mikið til þess að vinna leikinn. Það var ætlunin en það voru alltof margir þættir í spilamennskunni sem ég var ekki alls ekki ánægður með,“ sagði Sigursteinn Arndal þjálfari FH í samtali við handbolta.is í Kaplakrika í kvöld.