- Auglýsing -
- Auglýsing -

Alusovski látinn taka pokann sinn hjá Þór

Stevce Alusovski er sagður vera hættur hjá Þór. Mynd/Páll Jóhannesson
- Auglýsing -

Norður Makedóníumaðurinn Stevce Alusovski, sem þjálfað hefur karlalið Þórs á Akureyri frá sumrinu 2021, hefur verið látinn taka pokann sinn. Akureyri.net greinir frá og segir að forsvarsmenn Þórs hafi leyst Alusovski frá störfum sínum í morgun. Árangur Þórs hefur ekki verið sem skildi á keppnistímabilinu. Liðið situr í sjöunda sæti Grill 66-deildar með fimm stig að loknum sjö leikjum.

Frétt Akureyri.net.


Í byrjun maí á þessu ári var samningur Þórs við Alusovski framlengdur til þriggja ára. Ólu menn sér þá von í brjósti að með samningnum væri lagður hornsteinn að sókn Þórsara á handboltavellinum. Skjótt skipast veður í lofti.


Alusovski var óvænt ráðinn til Þórs sumarið 2021 eftir að hafa stýrt Vardar Skopje í heimalandi sínu tímabilið á undan. Vakti ráðning hans athygli víða um Evrópu. Vardar var þá landsmeistari í Norður Makedóníu og þátttakandi í Meistaradeild Evrópu. Í kjölfar skipulagsbreytinga hjá félaginu um vorið var Alusovski látinn sigla sinn sjó. Alusovski er vel þekktur í heimalandi sínu enda einn reyndasti landsliðsmaður Norður Makedóníu frá upphafi.

Halldór Örn tekur við

Uppfært:

Á heimsíðu Þórs kemur fram að Halldór Örn Tryggvason, sem ráðinn var sem aðstoðarþjálfari með Alusovski, en hefur verið í fæðingarorlofi, tekur við stjórn liðsins. Næsti leikur Þórsara er á útivelli gegn ungmennaliði Fram.

Nýverið tók Þorvaldur Sigurðsson við sem aðstoðarþjálfari meðan Halldór Tryggvason er í feðraorlofi.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -