„Ég lék síðast landsleik fyrir fimm eða sex árum og reiknaði ekki með að fá aftur tækifæri til að taka þátt í landsleik. Það var þess vegna alveg æðisleg sumargjöf að fá að vera með,“ sagði Anna Úrsúla Guðmundsdóttir handknattleikskona sem fór á kostum jafnt í vörn sem sókn með íslenska landsliðinu í handknattleik gegn Slóvenum í Schenkerhöllinni í gærkvöld í jafntefli í síðari umspilsleiknum um HM-sæti, 21:21. Hún var óþreytandi við að verjast leikmönnum slóvenska liðsins, batt saman vörnina, hvatti samherja sína til dáða auk þess að vera aðsópsmikil á línunni í sóknarleiknum, skoraði fjögur mörk, vann boltann og vítaköst.
Ástandið er nokkuð eðlilegt
„Ég er svolítið eftir mig en samt ekki eins mikið og ég reiknaði fyrirfram með. Ætli ástandið sé ekki bara nokkuð eðlilegt,“ sagði Anna Úrsúla létt í bragði þegar handbolti.is sló á þráðinn til hennar í morgun þar sem hún var að jafna sig eftir átökin á Grand Hótel þar sem landsliðið hefur búið í svokallaðri vinnustaðasóttkví undanfarna daga.
„Ég vil þakka fyrir traustið fyrir að vera valin og að einhverjir hafi talið að ég hefði eitthvað fram að færa“
„Markmiðið var að gefa allt í leikinn og það tókst mér og stelpunum. Þegar svo er getur maður gengið ánægður af leikvellinum. Það versta er þegar sú hugsun kemur upp í hugann á leiðinni út af vellinum að maður hefði getað gert betur. Ég held að allar stelpurnar hafi skilið allt sitt eftir á leikvellinum í gær.“
Með barnið í sóttkví
„Ég hafði mjög gaman af því að vera með góðum hóp og taka þátt í þessu,“ sagði Anna Úrsúla sem byrjaði að spila með Val í febrúar eftir að hafa eignast sitt þriðja barn í haust. Reyndar hafði Anna ætlað sér að draga saman seglin en lét þessi í stað byr ráða för. Hún hafði ekki tekið þátt í kappleik í tvö ár þegar hún lét tilleiðast að leika með Val eftir að hafa tekið þátt í æfingum, meira til að halda sér í formi, eftir að hafa fætt sitt þriðja barn á haustmánuðum. Dóttirin hefur verið með Önnu í sóttkví ásamt íslenska landsliðinu síðan á mánudag. Líkar þeim mæðgum hótellífið vel, að sögn.
„Það er best að ég tjái mig sem minnst um framhaldið eftir það sem á undan er gengið“
„Það var gaman að mæta slóvenska liðinu sem vel er skipað og taka á móti þeim af fullum þunga. Vonandi hefur það sýnt stelpunum að þær geta alveg náð úrslitum ef allir eru „all inn“ í verkefninu. Þá er íslenska landsliðinu allir vegir færir.“
Vildi gefa fordæmi
Anna Úrsúla sagði að fyrirfram hafi hún ekki verið viss um hvernig hún kæmi út úr leiknum. „Ég var hinsvegar viss um að ég gæti sýnt grimmd og kraft, verið fordæmi fyrir stelpurnar sem ég var að leika með. Ég vildi sýna þeim hversu langt rétt hugarfar og keppnisskap getur skilað þeim þótt vissulega hafi handknattleiksleg geta einnig sitt að segja. Rétt hugarfar og keppnisskap skiptir íslenska landsliðið mjög miklu máli gegn öllum andstæðingum. Vonandi hef ég sýnt þeim að það er einhver möguleiki,“ sagði Anna Úrsúla og bætti við.
Þakklát fyrir traustið
„Ég vil þakka fyrir traustið fyrir að vera valin og að einhverjir hafi talið að ég hefði eitthvað fram að færa,“ sagði Anna Úrsúla sem verður 36 ára gömul á verkalýðsdaginn, 1. maí. Landsleikurinn í gær var hennar 102. og fjögur mörk bættust í sarpinn. Þau eru nú orðin 225 fyrir landsliðið.
Fæst orð, minnst ábyrgð
Hvort þetta hafi verið síðasti landsleikurinn sagði Anna Úrsúla að í ljósi reynslunnar bæru fæst orð minnsta ábyrgð. „Það er best að ég tjái mig sem minnst um framhaldið eftir það sem á undan er gengið,“ sagði Anna Úrsúla Guðmundsdóttir og hló dátt um leið og hún sagðist krossa fingur yfir að hægt verði að ljúka keppni í Olísdeild kvenna þar sem Valur á tvo leiki eftir auk þátttöku í úrslitakeppni um Íslandsmeistaratitilinn.