Gísli Þorgeir Kristjánsson var valinn besti leikmaður úrslitahelgar Meistaradeildar Evrópu í handknattleik karla í dag eftir að hafa farið með himinskautum í úrslitaleiknum við Kielce í Lanxess Arena í Köln og leitt Magdeburg til sigurs í framlengingu. Gísli Þorgeir fylgir þar með í fótspor annars Hafnfirðings, Arons Pálmarssonar, sem valinn var besti leikmaður úrslitahelgar Meistaradeildarinnar 2014 og 2016. Í bæði skiptin var Aron í silfurliði keppninnar.
Gísli Þorgeir fór úr hægri axlarlið í undanúrslitaleiknum við Barcelona í gær og benti ekkert til þess að hann tæki þátt í úrslitaleiknum í dag. Hann krafðist þess að láta á það reyna og sagðist Bennet Wiegert þjálfari Magdeburg ekki hafa getað sett sig upp á móti því að pilturinn léki einn af sínu stóru leikjum á ferlinum úr því að hann treysti sér til þess. Útkoman var stórbrotin frammistaða en Gísli Þorgeir mætti til leiks eftir tæplega 20 mínútur og lék með í sóknarleiknum leikinn á enda. Framlengingu þurfti til þess að knýja fram hrein úrslit, 30:29.
Til að kóróna frammistöðu sína þá kom Gísli Þorgeir að öllum fjórum mörkum Magdeburg í framlengingunni. Hann skoraði tvö, lagði upp eitt fyrir Michael Damgaard og vann vítakast sem Kay Smits skoraði úr.
Hér er eitt af mörkum Gísla Þorgeirs í leiknum.
This is UNREAL 😳 Gisli Kristjansson came back from unconsciousness and scored a goal in the final 🤯 #ehfcl #ehffinal4 @SCMagdeburg pic.twitter.com/uxEMTbiJ4J
— EHF Champions League (@ehfcl) June 18, 2023