Þorsteinn Gauti Hjálmarsson og félagar í finnska landsliðinu unnu Slóvaka í dag í Hlohovec í Slóvakíu. Þetta var annar sigur Finna á Slóvökum á nokkrum dögum. Finnska liðið hefur þar með fjögur stig í 2. riðli undankeppninni og er í 3. sæti. Þeir mæta Svartfellingum í Finnlandi 7. maí og virðast til alls líklegir að berjast til sigurs í þeirri viðureigin eftir eins marks tap í Podgorica í nóvember.
Þar með gæti finnska landsliðið blandað sér í keppnina um að komast áfram í lokakeppni EM með bestan árangur í þriðja sæti eða hugsanlega náð öðru sæti. Það yrði sannarlega sögulegt fyrir EM ef sex Norðurlandaþjóðir verða í hópi 24 þátttökuliða í lokakeppni EM í janúar. Víst er að Danir, Norðmenn, Svíar og Íslendingar verða með og Færeyingar eru komnir með aðra hönd á EM-farseðilinn. Finnar geta orðið sjötta Norðurlandaþjóðin takist þeim vel upp í tveimur síðustu leikjunum í maí.
Þorsteinn Gauti skoraði eitt mark fyrir finnska liðið í Hlohovec.