Annika Fríðheim Petersen, markvörður Hauka, og stöllur hennar í færeyska landsliðinu í handknattleik tryggðu sér í gær sæti í undankeppni Evrópmótsins sem hefst í haust. Færeyska landsliðið vann sinn riðil í forkeppninni sem leikinn var í Þórshöfn um helgina en andstæðingar Anniku og félaga voru landslið Finnlands og Ísrael. Hafnfirðingurinn Finnur Hansson er aðstoðarþjálfari færeyska kvennalandsliðsins.
Færeyska landsliðið vann sannfærandi í báðum leikjum, 29:25, á móti Ísrael í gær og 21:19 í viðureigninni við Finna á föstudagskvöld. Annika átti afar góðan leik gegn Finnum var með 48% hlutfallsmarkvörðslu og á Facebook-síðu færeyska handknattleikssambandsins segir að hún hafi verið „sum ein múrur í málinum.“
Færeyska landsliðið verður í riðli með landsliðum Danmerkur, Rúmeníu og Austurríki í undankeppninni sem hefst í október.
Landslið Grikklands og Portúgals komust einnig upp í forkeppninni sem fram fór um helgina.
Nokkuð er síðan að dregið var í undankeppni EM. Íslenska landsliðið dróst í riðil með Svíþjóð, Serbíu og Tyrklandi.