Handknattleiksdómararnir Anton Gylfi Pálsson og Jónas Elíasson standa í stórræðum á Evrópumótinu í handknattleik í kvöld þegar þeir dæma viðureign Þýskalands og Noregs í Jyske Bank Boxen í Herning í Danmörku klukkan 19.30.
Þetta er fyrsti leikurinn sem þeir dæma í milliriðlakeppninni en þeir dæmdu tvær viðureignir í riðlakeppni mótsins; upphafsleik mótsins á milli Spánar og Serbíu í „Boxen“ og síðan viðureign Tékklands og Úkraínu í Unity Arena í Ósló.
Noregur og Þýskaland unnu viðureignir sína í 1. umferð milliriðlakeppninnar. Þýskaland lagði Portúgal, 32:30. Noregur hafði betur gegn Spáni, 35:34.
Takist Alfreð Gíslasyni og liðsmönnum hans í þýska landsliðinu að vinna leikinn í kvöld verður nokkuð víst að þýska landsliðið leikur í undanúrslitum mótsins.



