- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -

Áramótakveðja – Svo lengi lærir sem lifir

Mynd/Kristín
- Auglýsing -

Handbolti.is óskar lesendum sínum gleðilegs ár með kærri þökk fyrir frábærar viðtökur á þeim fjórum mánuðum sem vefurinn var opinn á nýliðnu ári. Það er síður en svo sjálfgefið að fá slíkar viðtökur eins mikið og framboðið er orðið af margskonar fréttamiðlum á veraldarvefnum. Þess vegna var rennt nokkuð blint í sjóinn þegar lagt var af stað í september eftir fremur stuttan undirbúning. Þótt að vonað væri að það versta væri yfirstaðið í kórónuveirufaraldrinum um mitt sumar þá var engu hægt að slá föstu. Nokkuð sem kom á daginn.


Handbolti.is fór í loftið 3. september, viku áður en Íslandsmótið hófst. Eftir á að hyggja sem betur fer. Í ljósi þess sem tók við í byrjun október hefði verið útilokað að hefja þá rekstur fréttavefjar um handbolta þegar lengra kom fram á haustið eða inn í veturinn. Handbolti.is hlaut byr með upphafi Íslandsmótsins, byr sem tekist hefur að halda þótt að undanskildum einum landsleik hafi ekki verið leikinn handknattleikur hér á landi síðan í byrjun október.

Lærdómsríkur tími

Að baki eru lærdómsríkur tíma hjá neðanrituðum. Sumt snýr að skrifum, fréttöflun, framsetningu og því hvernig veraldarvefurinn og samfélagsvefir virka. Af ýmsu þessu bjó neðanritaður að bærilegri reynslu. Svo lengi lærir sem lifir.  Hitt hefur hefur verið enn lærdómsríkara. Það er að reka lítið fyrirtæki. Eitt er að afla frétta og koma þeim frá sér. Annað er að halda fyrirtæki á floti, afla því tekna og tryggja þannig að handbolti.is geti dafnað. Í þeim efnum hefur eitt og annað komið á óvart. Á vettvangi rekstursins eins og við fréttaskrifin og framsetninguna hefur á ýmsu gengið. Flest þó vel þrátt fyrir einstakar aðstæður í samfélaginu. Auglýsendum er hér þakkað kærlega fyrir samvinnu og aðstoð með von um að framhald verði á samstarfi.

Ómetanlegur stuðningur

Fjölmennur hópur fólks hefur á undanförunum vikum gengið til liðs við handbolta.is með mánaðarlegum framlögum. Fyrir það erum við sem stöndum að handbolta.is sem er neðanritaður og Kristín B. Reynisdóttir, óendanlega þakklát. Það er síður svo sjálfgefið að fólk, sem margt hvert þekkir hvorki haus né sporð á okkur hjónaleysum, sé tilbúið að leggja fram mánaðarlegar greiðslur til reksturs fjölmiðils sem það getur hvort sem er lesið endurgjaldslaust. Þessi hlýi hugur hefur hvatt okkur til dáða og um leið orðið til að skjóta einni stoð undir reksturinn.

Ekki setið auðum höndum

Þótt keppni á Íslandsmótinu hafi legið niður í þrjá mánuði þá hefur ekki verið setið auðum höndum á ritstjórninni. Skrifaðar hafa verið rúmlega 1.500 greinar, lengri og styttri, pistlar og viðtöl og lítt verið slakað á nema rétt yfir hátíðisdagana. Margt af efni því sem birst hefur á handbolti.is hefur orðið að fréttaefni í stærri fjölmiðlum landsins. Jafnvel nætursaltað efni handbolta.is hefur orðið sumum skyndileg kveikja til skrifa. Allt um það. Einn tilgangur með útgáfu handbolta.is er að auka umfjöllun um handknattleik hér á landi.

Áhugi lesenda hefur verið mikill og jafn í gegnum tímabilið þótt vissulega sé skiljanlegt að lesendur séu spenntari fyrir sínu handboltafólki en lítt þekktu handboltafólki í langt í burtistan sem á tíðum hefur orðið helsta fréttaefnið á einstökum tímum.

Stórverkefni framundan

Framundan er stærsta verkefni handbolta.is til þessa. Heimsmeistaramótið í handknattleik karla í Egyptalandi sem hefst 14. janúar. Þangað fer neðanritaður og mun búa við mjög ströng skilyrði í fjölmiðlabúbblu. Það verður ný og áhugaverð reynsla sem vonandi tekst að miðla að einhverju leyti til lesenda.

Handbolti.is verður, eftir því sem næst verður komist, eini einkarekni fjölmiðill Íslands á mótinu. Kostnaður verður ærinn á mælikvarða þeirrar hófsemi sem beitt hefur verið við rekstur handbolta.is frá fyrsta degi. Áætlað er að kostnaður verði nærri einni milljón króna.  Þrátt fyrir það þá hikum við ekki sem stöndum að útgáfunni  að vera á staðnum og flytja fréttir af vettvangi. Við viljum þjóna lesendum en ekki síður í virðingaskyni við íslenska landsliðið að fylgja því eftir í alþjóðlegri keppni þótt aðstæður séu erfiðar og mun kostnaðarsamara sé að sækja stórmót nú um stundir vegna heimsfaraldurs.

Á sama tíma verður haldið uppi öflugum fréttaflutningi af því sem efst verður á baugi hér heima á meðan. Vonandi líður ekki langur tími til viðbótar áður en boltinn byrjar að berast á milli handknattleiksfólks hér heima.

Viðvörunarljósin blikka

Fyrir dyrum stendur fyrsta heila starfsár handbolta.is. Tilhlökkun ríkir í brjóstum okkar sem stöndum að útgáfunni. Vonandi fer handboltinn hér á landi á fulla ferð fljótlega. Það er orðið lífsnauðsynlegt fyrir starf handknattleiksdeilda og félaga hér á landi. Ef ekki er hætt við að Íslendingar dragist aftur úr í íþróttinni vegna þess að hún er og hefur verið stunduð um alla Evrópu þrátt fyrir ástandið. Ungmenni, næsta kynslóð handboltafólks hefur lítið sem ekkert æft síðustu 10 mánuði. Þar blikka viðvörunaljósin og hafa gert um langt skeið. Fyrir vikið gæti næsta uppskera orðið rýrari en ella. Þurrkatíminn hefur verið alltof langur.

Gleðilegt ár.

Með handboltakveðju,

Ívar Benediktsson, [email protected]

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -