MT Melsungen, með íslensku landsliðsmennina Arnar Frey Arnarsson og Elvar Örn Jónsson innanborðs, greiddi leið SC Magdeburg að þýska meistaratitlinum í handknattleik karla í kvöld. Melsungen vann Füchse Berlin, keppinaut Magdeburg í kapphlaupinu um meistaratignina, á heimavelli, 30:28. Þar með standa Magdeburg og Füchse Berlin áfram jöfn að stigum, með 50 hvort, en Magdeburg á tvo leiki til góða.
Melsungen-liðið átti síðustu 10 mínúturnar í leiknum í kvöld og gerði þá út um leikinn sem hafði verið jafn lengst af.
Arnar Freyr og Elvar Örn skoruðu tvö mörk hvor. Timo Kastening var markahæstur með níu mörk. Danirnir Hans Lindberg og Mathias Gidsel skoruðu átta mörk hvor fyrir Berlínarliðið.
Adam Morawski markvörður Melsungen var frábær. Hann varði 14 skot, þar af eitt vítakast, 39%.
Á sama tíma náði Dejan Milosavljev sér engan veginn á strik í marki Füchse Berlin en Milosavljev hefur þótt vera besti markvörður deildarinnar á tímabilinu.
Átta íslensk mörk í Gummersbach
Í kvöld vann annað Íslendingalið, Gummersbach, öruggan sigur á Wetzlar, 35:28, en uppselt var á leikinn í SCHWALBE arena í Gummersbach en liðlega 4.000 áhorfendur gerðu sér ferð á viðureignina.
Arnór Snær Óskarsson og Elliði Snær Viðarsson skoruðu fjögur mörk hvor. Arnór Snær átti eina stoðsendingu.
Með sigrinum endurheimti Gummersbach sjötta sæti deildarinnar af Hannover-Burgdorf sem vann Göppingen í gær, 33:26.
Staðan: