- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -

Arnar Freyr skoraði jöfnunarmark í toppslag

Arnar Freyr Arnarsson, landsliðsmaður og leikmaður MT Melsungen. Mynd/MT Melsungen
- Auglýsing -

Jöfnunarmark Arnars Freys Arnarssonar fyrir MT Melsungen 76 sekúndum fyrir leikslok á heimavelli gegn Magdeburg í dag reyndist tryggja liðinu annað stigið í leiknum, 29:29. Þrátt fyrir að bæði lið hafi fengið tækifæri til þess að bæta við mörkum eftir það kom allt fyrir ekki.


MT Melsungen er var þremur mörkum yfir í hálfleik, 17:14. Evrópumeistararnir sóttu í sig veðrið í síðari hálfleik og hefðu getað tryggt sér tvö nauðsynleg stig í keppni um efsta sæti deildarinnar við Füchse Berlin. Berlínarliðið gerði einnig jafntefli í sinni viðureign í dag og það með sömu markatölu, 29:29, gegn Göppingen í Max Schmeling Halle í Berlín.

Fimm mörk í fimm skotum

Arnar Freyr lék afar vel og skoraði m.a. fimm mörk úr fimm skotum auk þess að láta finna fyrir sér í vörninni og var einu sinni vikið af leikvelli í tvær mínútur. Elvar Örn Jónsson lék ekki með Melsungen vegna meiðsla eins og kom fram hér.

Aftur í hópnum

Ómar Ingi Magnússon kom Magdeburg yfir, 28:29, tæpum tveimur mínútum fyrir leikslok og skoraði alls níu mörk, þar af fjögur úr vítaköstum. Ómar Ingi átti þrjár stoðsendingar. Janus Daði Smárason skoraði fjórum sinnum og gaf fjórar stoðsendingar. Gísli Þorgeir Kristjánsson var í leikmannahópi Magdeburg, annan leikinn í röð.

Róðurinn þyngist

Fremur þyngist róður Balingen-Weilstetten í botnsæti þýsku 1. deildarinnar. Í dag tapaði liðið á heimavelli, 29:25, fyrir Hannover-Burgdorf. Heiðmar Felixson er aðstoðarþjálfari Hannover-Burgdorf.

Oddur Gretarsson skoraði fimm mörk fyrir Balingen-Weilstetten. Þrjú þeirra úr vítaköstum. Daníel Þór Ingason skoraði eitt mark.
Bergischer HC vann Stuttgart, 33:28, á heimavelli. Arnór Þór Gunnarsson er aðstoðarþjálfari Bergischer sem situr í 11. sæti af 18 liðum deildarinnar.

Fyrstur til að skora 3.000 mörk

Daninn Hans Lindberg varð í dag fyrstur til þess að skora 3.000 mörk í sögu þýsku 1. deildarinnar. Lindberg, sem er af íslensku bergi brotinn, skoraði þrjú mörk í jafnteflisleik Füchse Berlin og Göppingen í Max Schmeling Halle. Hann hefur þar með skorað alls 3.001 mark á 16 ára ferli í þýsku 1. deildinni, fyrst með HSV Hamburg og síðar Füchse Berlin.

Staðan í þýsku 1. deildinni:

Standings provided by Sofascore
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -