Arnór Snær Óskarsson leikmaður Vals var kallaður inn í íslenska landsliðið í handknattleik sem fór í morgun til Tékklands og mætir heimamönnum í undankeppni EM2024 í Brno í Móravíu-héraði í suðaustur hluta Tékklands á miðvikudaginn.
Þetta er í fyrsta sinn sem Arnór Snær er kallaður inn í A-landsliðið en hann á marga leiki með yngri landsliðunum.
Ástæða þess að Arnór Snær er kallaður inn er sú að Viggó Kristjánsson kennir sér eymsla þótt hann hafi leikið við hvern sinn fingur í gær þegar Leipzig vann Kiel á útivelli í þýsku 1. deildinni.
Ágúst Þór Jóhannsson og Gunnar Magnússon, starfandi landsliðsþjálfarar, vilja hafa vaðið fyrir neðan sig og hafa þriðja örvhenta leikmanninn til taks í skyttustöðunni hægra megin enda um afar mikilvægan leik að ræða sem getur skorið úr um hvort liðið hreppir efsta sæti riðilsins.
Kristján Örn Kristjánsson, Donni, og Ómar Ingi Magnússon geta ekki gefið kost á sér í landsliðið um þessar mundir.
Auk Viggós er Teitur Örn Einarsson einnig í landsliðshópnum í hægri skyttu stöðunni og nú hefur Arnór Snær bæst við.
Arnór Snær er 23 ára gamall. Hann hefur blómstrað með Valsliðinu á keppnistímabilinu, jafnt í Olísdeildinni og í Evrópudeildinni þar sem Valur er í 16-liða úrslitum. Arnór Snær eru þriðji Valsmaðurinn í hópnum. Hinir eru Björgvin Páll Gústavsson, markvörður og reynslumesti leikmaður landsliðsins um þessar mundir, og Stiven Tobar Valencia. Stiven er nýliði eins og Arnór Snær.
Leikurinn við Tékka í Brno á miðvikudaginn verður fyrri viðureignin af tveimur milli Íslands og Tékklands í undankeppni EM. Lið þjóðanna eru efst með fjögur stig hvort eftir tvær umferðir.
Síðari viðureignin fer fram í Laugardal á sunnudaginn og klukkan 16. Miðasala er hafin á Tix.is.
Stiven kallaður inn í hópinn sem mætir Tékkum