Þýsku bikarmeistararnir Rhein-Neckar Löwen staðfestu í morgun að samið hafi verið við Valsmanninn Arnór Snær Óskarsson. Samningurinn er til tveggja ára og flytur Arnór Snær til Mannheim í sumar og verður hluti af leikmannahópi liðsins frá og með næsta keppnistímabili.
Arnór Snær er 23 ára gamall örvhent skytta sem er fæddur og nánast uppalinn innan Vals. Hann gerði það svo sannarlega gott með Val á nýliðinni leiktíð og var einnig afar mikilvægu hlutverki tímabilið 2021/2022 þegar Valsliðið vann alla bikara sem í boði voru. Frammistaða Arnórs Snæs með Val í Evrópudeildinni vakti athygli á honum. Þegar Valur lék við Göppingen í lok febrúar heimsótti Arnór Snær bækistöðvar Rhein-Neckar Löwen þar sem frá samkomulaginu var gengið.
Arnór Snær sagður fara til Þýskalands í sumar – Stiven til Benfica?
Arnór Snær hefur leikið með öllum yngri landsliðum Íslands og var í fyrsta sinn í A-landsliðshópnum í leikjum við Tékka í undankeppni EM snemma í síðasta mánuði.
Fyrir hjá Rhein-Neckar Löwen er annar fyrrverandi leikmaður Vals, Ýmir Örn Gíslason.
Með samningi sínum við Rhein-Neckar Löwen fetar Arnór Snær í fótspor nokkurra Íslendinga. Auk Ýmis Arnar sem þegar er í herbúðum félagsins hafa m.a. Alexander Petersson, Guðjón Valur Sigurðsson, Ólafur Stefánsson, Snorri Steinn Guðjónsson, Róbert Gunnarsson og Stefán Rafn Sigurmannsson leikið með RNL. Einnig þjálfaði Guðmundur Þórður Guðmundsson lið RRNL frá 2010 til 2014. Til viðbótar lék Guðmundur Hrafnkelsson, markvörður, með Kronau-Östringen (2003-2005) sem var forveri RNL.
Rhein-Neckar Löwen er í fimmta sæti þýsku 1. deildarinnar með 37 stig þegar sjö umferðir eru eftir. Liðið hefur misst af lestinni í keppni um þýska meistaratitilinn en vann bikarkeppninar fyrir hálfum mánuði eftir magnaðan úrslitaleik við SC Magdeburg.
Willkommen bei den Löwen, Arnór! 🦁🙌 Arnór Snær Óskarsson wird sich zur kommenden Saison den Rhein-Neckar Löwen anschließen. Alle weiteren Infos gibt es auf unserer Website 📲 https://t.co/X2OezfEuVH #rnl #rnloewen #handball
— Rhein-Neckar Löwen (@RNLoewen) April 25, 2023