Arnór Atlason stýrði danska meistaraliðinu Aalborg Håndbold til sigurs í fyrri úrslitaleik liðsins við Bjerringbro/Silkeborg um danska meistaratitilinn í handknattleik í kvöld, 37:34, í Gigantium íþróttahöllinni í Álaborg. Liðin mætast öðru sinni í Silkeborg á sunnudaginn og þá geta Arnór og félagar tryggt sér danska meistararatitinn í fjórða sinn á fimm árum.
Arnór stýrði Aalborg-liðinu í kvöld vegna þess að aðalþjálfari liðsins, Stefan Madsen, er í einangrun um þessar mundir eftir kórónuveirusmit greindist í nágrenni við hann.
Viktor hafði betur gegn Óðni
Viktor Gísli Hallgrímsson og félagar í GOG unnu fyrri leikinn við Holstebro um bronsverðlaunin í dönsku úrvalsdeildinni á heimavelli í kvöld, 33:28, eftir að hafa verið marki yfir, 17:16, að loknum fyrri hálfleik. Viktor Gísli lék nær allan leikinn í marki GOG og varði 10 skot, 30% hlutfallsmarkvarsla.
Óðinn Þór Ríkharðsson skoraði fjögur mörk í fjórum skotum fyrir Holstebroliðið sem fær Viktor og félaga í heimsókn til Jótlands á laugardaginn.