FH-ingar unnu ÍBV í fyrsta opinbera kappleik Arons Pálmarssonar fyrir Hafnarfjarðarliðið í 14 ár nokkuð örugglega í Kaplakrika í kvöld í Hafnarfjarðarmótinu í handknattleik karla. Lokatölur voru 37:31 en tveimur mörkum munaði á liðunum að loknum fyrri hálfleik, 17:15.
FH var með yfirhöndina í leiknum frá upphafi til enda og þrátt fyrir ákafar tilraunir Eyjamanna þá tókst þeim ekki að ógna FH-ingum að einhverju ráði.
Öflugra lið
Magnús Stefánsson þjálfari ÍBV var með mun reynslumeira og öflugra lið að þessu sinni en í viðureigninni við Hauka í fyrrakvöld. Það nægði ekki gegn mjög sterku liði FH sem svo sannarlega lofar góðu hálfum mánuði áður en flautað verður til leiks í Olísdeildinni. Margt bendir til að FH verði liðið í vetur sem aðrir munu bera sig saman við.
Að Einari Braga Aðalsteinssyni undanskildum var Sigursteinn Arndal, þjálfari FH, með alla sína öflugustu leikmenn að þessu sinni. Einar Bragi er frá keppni vegna meiðsla en hann vildi lítið gera úr alvarleika meiðslanna þegar handbolti.is hitti hann í leikslok. Glotti bara við tönn.
Daníel Freyr Andrésson stóð í marki FH frá upphafi til enda. Hann, eins og Aron flutti heim í sumar, eftir margra ára veru í Evrópu. Níu ár eru liðin síðan Daníel Freyr klæddist síðast búningi FH í kappleik og virtist hann kunna vel við sig á fjölum Kaplakrika.
Töluverð eftirvænting
Ljóst að talsverð eftirvænting ríkti vegna Arons. Fjölda fólks dreif að í Kaplakrika á leikinn þrátt fyrir einstaka veðurblíðu utandyra. Aron olli engum vonbrigðum. Hann stimplaði sig inn með því að skora tvö fyrstu mörk FH í leiknum. Eftir það gerði Aron það sem hann er einna allra bestur í, að leika samherja sína uppi og halda varnarmönnum andstæðinganna á tánum. Á að giska tók Aron þátt í leiknum í 40 til 45 mínútur og lék svo sannarlega við hvern sinn fingur. Fleiri léku vel fyrir FH-liðið og ber þar helst að geta Jóhannesar Berg Andrasonar sem var óstöðvandi.
Eins og vera ber í æfingaleikjum þá fengu nær allir leikmenn beggja liða að láta ljós sitt skína.
Markvarsla og varnarleikur var helsti veikleiki ÍBV í leiknum. Hinn nýbakaði faðir, Sigtryggur Daði Rúnarsson, var allt í öllu í sóknarleik ÍBV ásamt Arnóri Viðarssyni.
Mörk FH: Jóhannes Berg Andrason 9, Ásbjörn Friðriksson 7, Einar Örn Sindrason 5, Aron Pálmarsson 4, Birgir Már Birgisson 4, Jakob Martin Ásgeirsson 3, Símon Michael Guðjónsson 2, Daníel Matthíasson 1, Jón Bjarni Ólafsson 1, Þórir Ingi Þorsteinsson 1.
Varin skot: Daníel Freyr Andrésson 12.
Mörk ÍBV: Sigtryggur Daði Rúnarsson 7, Arnór Viðarsson 5, Kári Kristján Kristjánsson 5, Ívar Bessi Viðarsson 4, Gabríel Martinez Róbertsson 3, Sveinn José Rivera 2, Daniel Vieira 2, Dánjal Ragnarsson 1, Friðrik Hólm Jónsson 1, Adam Smári Sigfússon 1.
Varin skot: Jóhannes Esra Ingólfsson 4, Pavel Miskevich 3.
Síðasti leikur Hafnarfjarðarmótsins fer fram á laugardaginn. FH og Haukar mætast í Kaplakrika. Flautað verður til leiks klukkan 12.
Tengdar fréttir: