- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -

Aron: Sífellt betur ljóst hversu góð ákvörðun var að flytja heim

Mikil eftirvænting ríkir fyrir endurkomu Arons Pálmarssonar í íslenskan handknattleik. Mynd/J.L.Long
- Auglýsing -

„Tilfinningin er góð. Mér líður afar vel og er mjög sáttur við þá ákvörðun mína að flytja heim. Með hverri vikunni sem líður þá verður mér sífellt betur ljóst hversu góð ákvörðunin var. Ég steig hárrétt skref á réttum tíma í mínu lífi,“ sagði Aron Pálmarsson handknattleiksmaður hjá FH í samtali við handbolta.is í gærkvöld eftir að hann lék sinn fyrsta opinbera kappleik með uppeldisfélaginu í 14 ár.


Eins og oft hefur komið fram ákvað Aron, sem er 33 ára gamall, að segja skilið við handknattleiksferilinn í Evrópu og flytja heim í sumar og taka upp þráðinn með uppeldisfélaginu í Kaplakrika. Persónulegar ástæður réðu mestu um ákvörðun Arons og eins hann sagði frá þegar flutningur heim var tilkynntur undir lok síðasta árs.

„FH-hjartað kallaði á mig“

Líður mikið betur en áður

„Líkamlega og andlega líður mér mikið betur en áður sem gefur að skilja skiptir öllu máli utan vallar sem innan. Ég er ógeðslega sáttur,“ sagði Aron af yfirvegun þegar hann settist um stund niður með handbolta.is eftir leikinn í Kaplakrika í gær að lokinni viðureigninni við ÍBV.

Fiðringur að klæðst búningnum

„Það fór um mann ákveðinn fiðringur að klæðast FH-búningnum á nýjan leik og ganga út á völlinn með samherjunum þótt aðeins um æfingaleik væri að ræða. Þetta var gaman enda alltaf geggjað að vera í Krikanum,“ sagði Aron. Ljóst að fiðringur var í fleiri en honum því talsverður hópur fólks lagði leið sína á leikinn síðdegis í gær þrátt fyrir einstaklega gott veður utan dyra.

Aron Pálmarsson fékk óblíðar móttöku hjá Sigtryggi Daða Rúnarssyni og Ísak Rafnssyni í vörn ÍBV í leiknum í Kaplakrika í gærkvöld. Mynd/J.L.Long

Verð einn af hópnum

Aron segir gaman að koma inn í það metnaðarfulla andrúmsloft sem ríki innan FH um þessar mundir. Samherja hans hungri í árangur. Hann næst ekki nema með því að leggja metnað og rækt í æfingar og keppni.

„Strákarnir eru tilbúnir að hlusta og ég er um leið reiðubúinn að miðla til þeirra. Á sama tíma verð ég að aðlagast þeirra kerfi sem er svo sem ekkert nýtt fyrir mig. Ég er vanur að koma inn í ný lið og laga mig að nýjum samherjum. Ég er kominn heim til að bæta FH-liðið, vera einn af hópnum, en ekki til að umturna liðinu,“ sagði Aron og leggur áherslu á orð sín.

„Ég er ekki að koma heim til að enda ferilinn“

Ásgeir Jónsson, formaður handknattleiksdeildar FH, Aron Pálmarsson, og Sigursteinn Arndal þjálfari meistaraflokks karla þegar tilkynnt var um komu Arons heim rétt fyrir síðustu jól. Mynd/J.L.Long

Meiðsladraugurinn kveðinn í kútinn?

Meiðsladraugurinn hefur elt Aron undanfarin ár, tognanir hér og tognanir þar hafa gert honum lífið leitt. Aron gerir sér góðar vonir um að kveða drauginn að mestu í kútinn. Aron hefur unnið náið með Hirti Hinrikssyni styrktarþjálfara FH og fyrrverandi handknattleiksmanni síðustu vikur og gerir sér góðar vonir að saman vinni þeir úr þeim veikleikum sem hafa verið að hrjá hann. Aron og Hjörtur þekkja handboltann út og inn og tala því sama tungumál, ef svo má segja.

Gott samstarf við Hjört

„Eftir að ég flutti heim hef ég haft mjög góðan tíma til þess að vinna í sjálfum mér. Samstarf okkar Hjartar hefur meðal annars beinst að leita að ástæðum meiðslanna og vinna bug á þeim. Ég er handviss um að bjartari tímar eru framundan enda er langur tími liðin síðan mér leið eins vel og núna,“ segir Aron sem leggur mikinn metnað í að leggja sitt af mörkum til félagsins og handboltans sem hefur verið hans líf og yndi frá barnæsku.

Fjórar goðsagnir í handknattleikssögu FH: F.v. Logi Geirsson, Aron Pálmarsson, Kristján Arason og Geir Hallsteinsson. Mynd/J.L.Long

Aron segist vera meðvitaður um að heimkoma hans beini sviðsljósunum mjög að honum og handboltanum hér á landi.
„Að sjálfsögðu átta ég mig á þeirri ábyrgð sem ég ber sem helsta andlit handboltans hér á landi. Þar af leiðandi er ég fyrirmynd margra.“

Ber ábygð

„Ég finn fyrir ábyrgð minni þótt ég sé ekki upptekin af henni á hverjum degi. Ég hef metnað fyrir að koma í góðu standi til leiks leggja mitt af mörkum. Ég veit líka að hvert klikk hjá mér í leiknum vegur tífalt meira en hjá öðrum. Það er bara hluti af þessu og tel mig ráða við það,“ sagði Aron sem sendir handknattleikhreyfingunni ákall um að nýta þann byr sem er í seglum til þess að blása til sóknar. Aron er tilbúinn að leggja sitt af mörkum.

Aron lék við hvern sinn fingur í fyrsta leiknum með FH í 14 ár – myndir

Hreyfingin á að nýta tækifærið

„Ég væri alveg til í að handknattleikshreyfingin nýtti tækifærið sem er að gefast. Auk mín þá er Lexi [Alexander Petersson] að koma inn í boltann hér heima. Kastljósin munu beina í enn frekari mæli að handboltanum og okkur. Framundan er spennandi tímar. Ég tel einboðið að hreyfinginn nýti tækifærið og vinna náið með okkur Lexa að útbreiðslu og kynningu á handboltanum.

Vill leggja sitt af mörkum

Ég hef aldrei verið mikið fyrir auglýsingar en er alveg tilbúinn að leggja mitt af mörkum við að kynna handboltann og deildina hér heima. Olísdeildin er frábær söluvara eins og við höfum séð á undanförnum árum. Margir frábærir handknattleiksmenn leika með liðum deildarinnar. Söluvaran er fyrir hendi en það hreyfingarinnar að nýta tækifærið að taka saman höndum og hafa frumkvæðið,“ sagði Aron Pálmarsson fyrirliði íslenska landsliðsins og leikmaður FH í samtali við handbolta.is í Kaplakrika í gærkvöld.

Tengdar fréttir:

Olísdeild karla.

Leikjadagskrá Olísdeildanna.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -