Ásthildur Jónasdóttir fór hamförum og skoraði 18 mörk í stórsigri íslenska landsliðsins á Norður Makedóníu, 48:26, í milliriðlakeppni Evrópumótsins 19 ára landsliða í Potgorica í Svartfjallalandi í dag. Staðan var 21:7 eftir fyrri hálfleik. Fyrir leikinn þurfti íslenska liðið að vinna með a.m.k. 18 marka mun til þess að vera öruggt um að leika um sæti níu til sextán
Þar með er víst að íslenska liðið leikur um sæti níu til 16 á mótinu næstu daga. Sigurinn í dag hefur þar með tryggt Íslandi keppnisrétt á HM 20 ára landsliða á næsta sumri. Eftir því sem næst verður komist fara 16 efstu liðin frá EM inn á HM á næsta ári.
Markamet hjá Ásthildi?
Sjálfsagt eru 18 mörk Ásthildar markamet hjá stúlku í yngri landsliðum og jafnvel þegar litið er til piltaflokka einnig á stórmótum yngri landsliða. Það sem gerir markafjölda Ásthildar enn athyglisverðari er sú staðreynd að hún skoraði ekkert markanna úr vítakasti.
Íslenska liðið byrjaði leikinn af miklum krafti með frábærri 5/1 vörn. Vopnin voru slegin úr höndum liðs Norður Makedóníu strax í upphafi. Frábær varnarleikur skilaði sér í fjölda hraðaupphlaupa í fyrri hálfleik. Skoraði fyrrgreind Ásthildur m.a. 10 mörk í fyrri hálfleik, flest úr hraðaupphlaupum.
Þótt íslenska liðið slakaði aðeins á í vörninni í síðari hálfleik þá gaf það ekkert eftir í sóknarákafanum og hreinlega hélt áfram að rúlla yfir lið Norður Makedóníu sem átti engin svör.
Síðar í dag eða í kvöld skýrist hvaða leikir bíða íslenska liðsins á fimmtudag og föstudag.
Mörk Íslands: Ásthildur Þórhallsdóttir 18, Arna Karítas Eiríksdóttir 8/5, Bergrós Ásta Guðmundsdóttir 8/2, Guðrún Hekla Traustadóttir 4, Ágústa Rún Jónasdóttir 3, Sara Lind Fróðadóttir 3, Dagmar Guðrún Pálsdóttir 3, Emelía Ósk Aðalsteinsdóttir 1.
Varin skot: Ingunn María Brynjarsdóttir 4/1, 25% – Elísabet Millý Elíasardóttir 4/1, 22,2%.
Handbolti.is fylgdist með leiknum í textalýsingu hér fyrir neðan.