Aron Pálmarsson segir það verða tilfinningaríka stund að taka þátt í kveðjuleik sínum í Kaplakrika á föstudaginn þegar FH og ungverska meistaraliðið og eitt öflugasta félagslið Evrópu, One Vezprém mætast í Kaplakrika kl. 18.30. Viðureignin er kveðjuleikur Aroni til handa eftir einn glæsilegasta handboltaferil íslensks handboltamanns og þótt víðar væri leitað.
Hugmynd frá Pascual
Aron tilkynnti í byrjun júní að hafa ákveðið að láta gott heita á handboltavellinum. Hann segist í upphafi ekki hafa verið hrifinn af hugmyndinni um kveðjuleik en sé í dag þakklátur fyrir að hafa staðið þetta til boða. Humyndin er sprottin frá Xavier Pascual þjálfara Veszprém og sem var þjálfari Barcelona þegar Aron lék með liðinu frá 2017 til 2021.
Spurður hvort hann ætli að leika með báðum liðum í leiknum segir Aron það óvíst en vissulega vilji hann vinna síðasta leik sinn á ferlinum.
„Ég er spenntur og glaður hvað FH-ingar hafa gert mikið úr þessu. Hugmyndin er komin frá Xavier Pascual þjálfara Veszprém að liðið kæmi hingað til lands og spila við mitt uppeldisfélag. Ég er gríðarlega þakklátur fyrir það þótt ég hafi ekki verið mjög spenntur í upphafi þegar hugmyndin var sett fram. Þegar nær dregur leiknum þá líst mér betur á, ekki síst þegar ég sé hvað þetta gefur mikið fyrir handboltann hér heima og mig sjálfan,“ sagði Aron þegar handbolti.is hitti hann að máli í Kaplakrika í dag.
Engin ákvörðun tekin
Spurður hvort hann ætlaði sér að leika með báðum liðum í leiknum sagði Aron það vera óljóst ennþá. „Ákvörðun hefur ekki verið tekin ennþá. Ég veit ekki hvað ég vil, vonandi gengur það bara upp á föstudaginn. En auðvitað vil ég vinna síðasta leikinn minn,“ sagði Aron Pálmarsson í viðtali við handbolta.is í dag.
Lengra viðtal við Aron er í myndskeiði hér fyrir ofan.
- Kveðjuleikur Arons hefst í Kaplakrika á föstudaginn kl. 18.30.
- Miðasala er á stubb.is.
- Nánari upplýsingar um dagskrá dagsins er að sjá í auglýsingunni hér fyrir neðan.
