Talsverð spenna er hlaupin í botnbaráttu Olísdeildar karla í handknattleik eftir leiki kvöldsins. Bæði Fjölnir og ÍR unnu leiki sína og sækja þar með hart að Gróttu þegar þrjár umferðir eru eftir. Fjölnismenn lögðu lánlausa Gróttumenn í Hertzhöllinni, 35:31, og hafa þar með átta stig. ÍR-ingar settu strik í reikning HK-inga með sigri í Skógarseli, 32:29. ÍR jafnaði þar með Gróttu að stigum, hvort lið hefur tíu stig.
Staðan og næstu leikir í Olísdeildum.
FH vann annan Hafnarfjarðarslag vetrarins þegar liðið sótti Hauka heim og vann með þriggja marka mun, 28:25. Sigurinn tryggði FH um leið áframhaldandi veru í efsta sæti Olísdeildar með 29 stig eftir 19 leiki. Bikarmeistarar Fram eru tveimur stigum á eftir og eiga leik til góða gegn Val annað kvöld á Hlíðarenda.
Níu mörk í síðari hálfleik
Jóhannes Berg Andrason átti stórleik, skoraði 12 mörk, þar af níu í síðari hálfleik. FH-ingnum héldu engin bönd fremur en flestum öðrum félögum hans í síðari hálfleik.

Féll allur ketill í eld
Haukar voru öflugri í fyrri hálfleik og voru með fjögurra marka forskot að honum loknum, 16:12. Haukum féll allur ketill í eld í síðari hálfleik. FH-ingar gengu á lagið, jafnt í vörninni sem í sókninni þar sem Jóhannes Berg var fremstur meðal jafningja.
Unnu síðasta í október
Fjölnismenn sýndu fram á að þeir hafa sannarlega ekki lagt árar í bát þrátt fyrir að hafa ekki unnið leik síðan 24. október er þeir lögðu Gróttumenn í Fjölnishöllinni, 31:28. Þeir mættur ákveðnir til leiks í Hertzhöllinni á Seltjarnarnesi í kvöld og voru með yfirhöndina frá upphafi til enda. Enn lengra er síðan Grótta vann síðast leik í Olísdeildinni.

Ólafur Rafn var frábær
Svipaða sögu er að segja um ÍR-inga sem hafa átt erfitt uppdráttar síðustu vikur og mánuði. Þeim tókst að laga vörn sína og kveikja þar með á markvörslunni gegn HK í kvöld.
Ólafur Rafn Gíslason markvörður svaraði kallinu og varði 20 skot. HK-ingar sem hafa gert það gott upp á síðkastið áttu lengst af undir högg að sækja, ekki síst í fyrri hálfleik þegar þeim tókst aðeins að skora 11 mörk. HK sótti í sig veðrið í síðari hálfleik en það dugði skammt. ÍR-ingar fögnuðu langþráðum sigri og sitja við hlið Gróttu þegar þrjár umferðir eru eftir.
Eitt lið fellur
Eitt lið fellur úr Olísdeildinni í vor en það næst neðsta tekur þátt í umspili. Er þetta breyting frá síðustu árum þegar tvö neðstu liðin hafa farið rakleitt niður. Fjölnir er neðst með átta stig, ÍR og Grótta hafa 10 stig hvort og síðan eru þrjú stig upp í KA sem gerði jafntefli við ÍBV í kvöld, 31:31, í KA-heimilinu.
Staðan og næstu leikir í Olísdeildum.
Grótta – Fjölnir 31:35 (13:17).
Mörk Gróttu: Jón Ómar Gíslason 7/3, Antoine Óskar Pantano 6, Gunnar Dan Hlynsson 3, Ágúst Ingi Óskarsson 3, Atli Steinn Arnarson 3, Alex Kári Þórhallsson 2, Jakob Ingi Stefánsson 2, Hafsteinn Óli Ramos Rocha 2, Ari Pétur Eiríksson 1, Elvar Otri Hjálmarsson 1, Þorgeir Bjarki Davíðsson 1.
Varin skot: Hannes Pétur Hauksson 7, 29,2% – Magnús Gunnar Karlsson 2, 10%.
Mörk Fjölnis: Björgvin Páll Rúnarsson 8/5, Aðalsteinn Örn Aðalsteinsson 7, Elvar Þór Ólafsson 7, Gunnar Steinn Jónsson 5, Alex Máni Oddnýjarson 3, Viktor Berg Grétarsson 2, Óðinn Freyr Heiðmarsson 2, Brynjar Óli Kristjánsson 1.
Varin skot: Bergur Bjartmarsson 11/1, 26,2%.
Tölfræði leiksins hjá HBStatz.
ÍR – HK 32:29 (14:11).
Mörk ÍR: Baldur Fritz Bjarnason 12/2, Bernard Kristján Darkoh 9, Sveinn Brynjar Agnarsson 5, Bjarki Steinn Þórisson 2, Hrannar Ingi Jóhannsson 2, Róbert Snær Örvarsson 2.
Varin skot: Ólafur Rafn Gíslason 20/1, 40,8%.
Mörk HK: Hjörtur Ingi Halldórsson 6, Júlíus Flosason 5, Andri Þór Helgason 5, Leó Snær Pétursson 4, Sigurður Jefferson Guarino 4, Ágúst Guðmundsson 3, Aron Dagur Pálsson 2.
Varin skot: Jovan Kukobat 20, 39,2%.
Tölfræði leiksins hjá HBStatz.
Haukar – FH 25:28 (16:12).
Mörk Hauka: Skarphéðinn Ívar Einarsson 6, Össur Haraldsson 6, Andri Fannar Elísson 3/1, Þráinn Orri Jónsson 2, Adam Haukur Baumruk 2, Birkir Snær Steinsson 2, Hergeir Grímsson 2, Geir Guðmundsson 1, Guðmundur Hólmar Helgason 1.
Varin skot: Aron Rafn Eðvarðsson 12/2, 37,5% – Vilius Rasimas 4/1, 33,3%.
Mörk FH: Jóhannes Berg Andrason 12, Ásbjörn Friðriksson 6/1, Einar Örn Sindrason 4/3, Birgir Már Birgisson 1, Garðar Ingi Sindrason 1, Jakob Martin Ásgeirsson 1, Jón Bjarni Ólafsson 1, Leonharð Þorgeir Harðarson 1, Símon Michael Guðjónsson 1.
Varin skot: Daníel Freyr Andrésson 9/2, 26,5%.
Tölfræði leiksins hjá HBStatz.
KA – ÍBV 31:31 (19:17).
Mörk KA: Dagur Árni Heimisson 10, Patrekur Stefánsson 8, Ott Varik 5, Einar Rafn Eiðsson 5/2, Logi Gautason 2, Bjarni Ófeigur Valdimarsson 1.
Varin skot: Bruno Bernat 6, 22,2% – Nicolai Horntvedt Kristensen 3, 25%.
Mörk ÍBV: Sigtryggur Daði Rúnarsson 8/4, Sveinn Jose Rivera 7, Daniel Esteves Vieira 5, Gauti Gunnarsson 3, Nökkvi Snær Óðinsson 3, Dagur Arnarsson 3, Elís Þór Aðalsteinsson 1, Andri Erlingsson 1.
Varin skot: Petar Jokanovic 10, 26,3% – Pavel Miskevich 2/1, 40%.