Axel Axelsson tók þýðingamesta vítakastið í sögu þýsku „Bundesligunnar“ í handknattleik, þegar hann tryggði Grün Weiss Dankersen Minden þýskalandsmeistaratitlinn í handknattleik 15. maí 1977 í hreinum úrslitaleik í Westfalenhalle í Dortmund fyrir framan 6.500 áhorfendur.
Dankersen lék þá við Grosswallstadt í síðasta hreina úrslitaleiknum, en þá var fyrirkomulagið þannig að tvö lið úr norðurriðli og tvö lið úr suðurriðli „Bundesligunnar“ mættust í undanúrslitum, heima og heiman, og sigurvegarar mættust síðan í úrslitaleik. Nýtt fyrirkomulag á „Bundesligunni“ var síðan tekið upp keppnistímabilið 1977-1978, en þá léku 14 lið í úrvalsdeild. Það voru ekki allir ánægðir með það fyrirkomulag, þar sem ferðakostnaður liðanna varð miklu meiri.
HSÍ og Dankersen ná samkomulagi
Mikill hugur var í herbúðum Dankersen keppnistímabilið 1976-1977 og ætlaði þjálfarinn Vitomir Arsenejevic, Júgóslavíu, sér ekkert annað en Þýskalandsmeistaratitilinn. Það urðu árekstrar í byrjun árs 1977 á milli hans og Janusar Czerwinsky, landsliðsþjálfara Íslands, sem lagði mikla áherslu á að Axel og Ólafur H. Jónsson, leikmenn Dankersen, léku með í B-keppninni í Austurríki í lok febrúar, þar sem Ísland keppti um sæti á HM í Danmörku 1978.
Samkomulag náðist á milli HSÍ og Dankersen, um að Axel og Ólafur tækju þátt í undirbúningi landsliðsins að mestu, en þeir kæmu strax til Dankersen, þegar ástæða væri til.
Eftir að Axel og Ólafur höfðu farið á kostum í sigurleik gegn Spánverjum, þar sem farseðilinn á HM var nær gulltryggður, 21:17, tóku þeir Axel, sem skoraði sjö mörk í leiknum og átti fimm línusendingar á Ólaf, sem gáfu mörk, lífinu rólega og fóru heim fyrir síðasta leikinn, er keppt var við Tékkóslóvakíu um brons, 19:21. „Það var slæmt að vera án Axels og Ólafs, sem sýndu snilldartakta gegn Spánverjum,“ sagði Geir Hallsteinsson, sem var tekinn úr umferð í leiknum.
Þriðji úrslitaleikurinn í röð!
* Dankersen og Rheinhausen urðu efst í norðurriðlinum og komust í undanúrslit ásamt Grosswallstadt og Hofweier úr suðurriðlinum. Dankersen og Hofweier gerðu jafntefli í fyrri leiknum 15:15, en Axel fór síðan á kostum í seinni leiknum í Minden, 20:16; skoraði 5 mörk, Ólafur tvö.
* Grosswallstadt tapaði úti fyrir Rheinhausen 15:17, en vann heima 25:16.
* Það var ljóst að Dankersen myndi leika úrslitaleikinn um Vestur-Þýskalandsmeistaratitlinn þriðja árið í röð, en liðið hafði tapað fyrir Gummersbach 1975 og 1976. Þá hafði Dankersen orðið bikarmeistari tvö ár í röð; 1975 og 1976, en það ár tapaði liðið úrslitaleik Evrópukeppni bikarhafa fyrir Granollers á Spáni í framlengdum leik, 24:26.
Háspennan mikla
Það var geysileg stemning í hinni glæsilegu Westfalenhalle, sem tók 16.500 áhorfendur; var kölluð „ljónagryfjan“ eða Wembley handknattleiksins í Þýskalandi. Hátt á sjöunda þúsund áhorfenda mættu á leikinn og að sjálfsögðu voru þeir flestir frá liðunum sem áttust við. Þá var leiknum, sem fór fram klukkan fjögur á sunnudegi, sjónvarpað beint og voru þeir Axel og Ólafur heldur betur í sviðsljósinu.
Leikmenn Grosswallstadt voru með yfirhöndina í fyrri hálfleik, en þeir náðu aldrei að rífa sig frá leikmönnum Dankersen, sem jöfnuðu jafn harðan; Ólafur til dæmis 13:13 (sjá mynd), þegar Grosswallstadt var tveimur mörkum yfir. Spennan var mikil, það heyrðist ekki mannamál í höllinni. Dankersen jafnaði 17:17, 18:18, 19:19 og 20:20. Þegar 30 sek. voru til leiksloka fór Hans Kramer inn úr horni, en brotið var á honum áður en hann náði skoti. Dómarar flautuðu og bentu á vítapunktinn! Stuðningsmenn Grosswallstadt mótmæltu kröftuglega.
Hávaðinn var gífurlegur í höllinni. Spennan var mögnuð. Hver tæki vítakastið? Dieter Waltke hafði skorað úr þremur vítaköstum fyrir Dankersen, en í fjórða vítakastinu hafnaði knötturinn í slá. Axel hafði tekið eitt vítakast eftir það og skorað. Það var þjálfarinn Arsenejevic sem tók ákvörðunina. Hann gaf merki inn á völlinn, benti á Axel; „Þú tekur vítakastið!“
Dómarinn ekki búinn að flauta
Axel tók vítakastið, sendi knöttinn yfir Manfred Hofmann, landsliðsmarkvörð V-Þjóðverja. Knötturinn skall á slánni og fór niður á völlinn. Hofmann snéri sér snökkt við; ætlaði sér að ná í knöttinn og senda hann fram í hraða sókn! Varð þá fyrir því óhappi að hlaupa beint á knöttinn, sem skaust inn í markið. Stuðningsmenn Dankersen fögnuðu; MARK! Dómarar flautuðu; dæmdu markið ekki gilt. Þeir höfðu ekki verið búnir að flauta vítakastið á þegar Axel tók það. „Hávaðinn var mikill. Ég hélt að dómarinn væri búinn að flauta,“ sagði Axel.
Endurtaka þurfti leikinn; spennan magnaðist. Bæði í höllinni og hjá sjónvarpsáhorfendum, sem horfðu á þennan mikla spennuleik. Spurningin var, tæki Axel aftur vítakastið; það þýðingarmesta í sögu „Bundesligunnar“ eða færi Waltke aftur á punktinn?
Ákveðinn að skora!
Það var þjálfarinn sem tók ákvörðunina! „Ég fékk kipp í magann þegar Vitomir gaf merki og kallaði; AXEL! Það var mikil spenna þegar ég stóð fyrir framan Hofmann. Ég var tilbúin og ákveðinn að skora. Sendi knöttinn niður í markhornið; óverjandi skot. Leikmenn Grosswallstadt geystust fram völlinn og urðu strax að reyna markskot. Rainer Niemeyer, markvörður okkar, sá við þeim og varði síðasta skot leiksins.”
Axel sagði að hann og Ólafur hefðu upplifað ógleymanlegar stundir; fyrst öll fagnaðarlætin Westfalenhalle. Leikmenn Dankersen komust ekki til búningsklefa fyrr en klukkustund eftir leik. Síðan tók við 153 km akstur heim, eins og hálf klukkustund í rútu. Þar tóku um fimm þúsund manns á móti leikmönnum í Dankersen, sem er lítill sex þúsund manna bær fyrir utan Minden (100 þúsund íbúar).
Þess má geta að íþróttahúsið í Dankersen stendur við Olafstræti. Götunafnið var til löngu áður en Ólafur kom til Dankersen.
Vlado Stenzel, landsliðsþjálfari Vestur-Þýskalands, var einn af sérfræðingunum í sjónvarpi. Hann sagði að mikil og góð reynsla sem leikmenn Dankersen hafi fengið í tveimur úrslitaleikjum 1976, hafi reynst þeim vel í taugaspennunni í lokin. „Sú reynsla skilaði þeim meistaratitli!“
Grosswallstadt lagði Val
* Þess má geta að Kurt Klühspies, sem skoraði níu mörk, lék aðalhlutverkið hjá Grosswallstad, sem varð síðan V-Þýskalandsmeistari fjögur ár í röð; 1978-1981 og liðið varð Evrópumeistari meistaraliða 1979-1980, með því að leggja Val að velli í úrslitaleik í München, 21:12.
Meistarahjón
* Axel og Ólafur urðu aftur á móti bikarmeistarar 1979, þegar Dankersen vann Kiel í úrslitaleik í Hamborg, 19:14. Axel skoraði fjögur mörk, Ólafur þrjú.
* Axel varð þrisvar bikarmeistari með Dankersen og einu sinni Vestur-Þýskalandsmeistari. Eiginkona hans, Kristbjörg Magnúsdóttir, varð tvisvar Vestur-Þýskalandsmeistari með Eintracht Minden og einu sinni bikarmeistari. Ólafur varð tvisvar bikarmeistari með Dankersen og einu sinni Vestur-Þýskalandsmeistari.
HSÍ kallar á landsliðsmenn heim!
Í næstu umfjöllum um Íslendinga í Þýskalandi verður sagt frá snjöllum hópi leikmanna sem héldu merki Íslands á lofti þegar Axel og Ólafur héldu heim. Kynslóðaskipti urðu! Þá koma við sögu Bjarni Guðmundsson, Val, Sigurður Valur Sveinsson, Þrótti, Atli Hilmarsson, Fram/FH, Alfreð Gíslason, KA/KR, Kristján Arason, FH, Jóhann Ingi Gunnarsson, þjálfari, Val og Páll Ólafsson, Þrótti.
Frægir félags- og landsliðsþjálfarar Vestur-Þýskalands lofuðu þessa leikmenn í hástert. HSÍ kallaði á þessa leikmenn heim til að taka þátt í undirbúningi fyrir Ólympíuleikana í Seoul 1988. Þýsku liðin vildu halda sínum mönnum, en síðan héldu flestir þessara leikmanna í víking til Spánar og gerðu garðinn frægan þar.
Eftir að koma víða við
Ég tek mér nú smá frí frá söguritun fyrir handbolti.is, en kem sterkur til leiks í aprílbyrjun og klára ritverkið um leið og handknattleiksmenn í Þýskalandi ljúka keppnistímabilinu 2021-2022. Við, eins og þeir, eigum eftir að koma víða við og skemmta okkur. Já, ballið er rétt að byrja.
Eins og fyrr segir, þá er ég „farinn í fríið“ og kynslóðaskipti Íslendinga í Vestur-Þýskalandi verður næsta söguefnið.
Auf Wiedersehn
Fyrri greinar Sigmundar um brautryðjendur sem hann hefur skrifað fyrir handbolta.is:
Svana fyrst eftir „teinunum“ í Þýskalandi
„Furan“ og „rauðhærði villimaðurinn“
Geir himnasending fyrir Göppingen
Axel og Kristbjörg – meistarahjón!
„Umbarnir“ voru ekki vaknaðir!