Íslenska landsliðið, skipað leikmönnum 19 ára og yngri vann landslið Slóveníu með eins marks mun í fyrstu umferð Sparkassen Cup-mótsins í Metzing í Þýskalandi í dag, 29:28 í kaflaskiptum leik, eftir að jafnt var þegar fyrri hálfleikur var að baki, 11:11. Næsti leikur liðsins verður gegn B-landsliði Þýskalands fyrir hádegið á morgun. Síðdegis á morgun spreyta íslensku piltarnir sig gegn hollenska landsliðinu.
ÍR-ingurinn Baldur Fritz Bjarnason átti stórleik og skoraði 13 mörk hjá Slóvenum sem vissu ekki sitt rjúkandi ráð hvernig ætti að verjast pilti.
Íslensku piltarnir byrjuðu fremur illa. Slóvenar skoruðu fjögur fyrstu mörkin og 10 af þeim fyrstu 15 í fyrri hálfleik. Eftir það hresstist íslenska liðið verulega og náðu að jafna metin fyrir hálfleik. Íslensku piltarnir voru með eins til tveggja marka forskot lengst af síðari hálfleiks ef undan er skilinn stuttur kafla rétt fyrir miðjan hálfleikinn þegar Slóvenar komust yfir um stund.
Mörk Íslands: Baldur Fritz Bjarnason 13/1, Stefán Magni Hjartarson 4, Elís Þór Aðalsteinsson 3, Ágúst Guðmundsson 2/2, Garðar Örn Sindrason 2, Harri Halldórsson 2, Daníel Bæring Grétarsson 1, Jason Stefánsson 1, Leó Halldórsson 1.
Varin skot: Jens Sigurðarson varði 7, Sigurjón Atlason 3.
Sjá einnig: Heimir fastagestur í Merzig í 30 ár – kom heim með brons 1995