„Það er bara frábært að vera komin áfram. Það var klárlega eitt af markmiðum okkar,“ sagði Hafdís Renötudóttir markvörður Vals af yfirvegun þegar handbolti.is hitti hana að máli rétt eftir að Hafdís og stöllur í Val tryggðu sér sæti í undanúrslitum Evrópubikarkeppninnar í handknattleik kvenna eftir að hafa lagt Slavía Prag samanlagt 50:43. Hafdís fór á kostum í báðum leikjum. Þegar á brattann var að sækja hjá Val í leiknum í dag og liðið sex mörkum undir og sæti í undanúrslitum virtist vera að renna liðinu úr greipum fór Hafdís á kostum í markinu.
„Ég er ánægð með að hafa náð að verja nokkra bolta í leiknum,“ sagði Hafdís og vildi ekki gera of mikið úr eigin frammistöðu.
„Þetta var okkar markmið og ég er mjög ánægð að okkur tókst að snúa við taflinu í síðari hálfleik. Næst á dagskrá er fullur fókus á bikarleikinn á fimmtudaginn,“ sagði Hafdís en Valur mætir Fram í undanúrslitum Powerardebikarsins á Ásvöllum á fimmtudaginn. Skammt er stórra högga á milli.
Lengra viðtal er við Hafdísi er í myndskeiði hér fyrir ofan.
Sjá einnig: Valur vann sig í gegnum vandann og í undanúrslit
Valur mætir slóvakísku meisturunum í undanúrslitum síðla í mars