- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -

Berge hefur gefið Ísland upp á bátinn

Norðmaðurinn Christian Berge. Mynd/EPA
- Auglýsing -

Ekkert verður af því að Christian Berge verði næsti landsliðsþjálfari Íslands í handknattleik karla en talsverðar vangaveltur hafa verið um það víða síðustu daga og vikur. Reyndar bárust af því fregnir fyrir síðustu helgi að Berge væri ekki lengur inni í myndinni. Nú hefur það verið staðfest.

Ísland kitlaði

Berge segir í fréttatilkynningu sem Kolstad sendi frá sér í dag að hann hafi rætti við forráðamenn Handknattleikssambands Íslands. Það hafi kitlað sig að taka við þjálfun íslenska landsliðsins. Niðurstaðan hafi hinsvegar orðið sú að hann vildi ekki taka meiri frítíma frá fjölskyldunni. Einnig standi hugur hans til þess að leggja alla sína orku í Kolstadliðið sem varð norskur meistari í vor og er komið í undanúrslit í úrslitakeppninni. Berge útilokar ekki að framtíðinni skapist þær aðstæður að hann stýri landsliði samhliða þjálfun Kolstad.

Berge hætti þjálfun norska landsliðsins eftir Evrópumótið í ársbyrjun í fyrra og tók við norska liðinu Kolstad sem er ætlað að verða eitt af stórliðum Evrópu í handknattleik karla á næstu árum.

Kom ekki til greina í Noregi

„Það freistaði mín að þjálfa íslenska landsliðið samhliða þjálfun Kolstad,“ segir Berge í tilkynningunni. Hann þjálfaði norska landsliðið með afar góðum árangri í átta ár, frá 2014 til 2022. Þegar Berge tók við þjálfun Kolstad var það hans vilji að halda áfram þjálfun norska landsiðsins. Forráðamenn norska handknattleikssambandsins sögðu það á hinn bóginn ekki koma til greina.

Ljóst er að meira verður að gera hjá Berge á næsta keppnistímabili ef Kolstad fær sæti í Meistaradeild Evrópu en norskur meistararnir hafa átt sæti í keppninni undanfarin ár.

Snorri Steinn helst nefndur

Leit HSÍ-manna að eftirmanni Guðmundar Þórðar Guðmundssonar heldur áfram. Um þessar mundir ber hæst í umræðunni nafn Snorra Steins Guðjónssonar þjálfara karlaliðs Vals og fyrrverandi landsliðsmanns. Þegar handbolti.is leitaði svara hjá Róberti Geir Gíslasyni framkvæmdastjóra HSÍ í gær sagðist hann ekkert hafa um málið að segja annað en að unnið væri að því.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -