Eyjamaðurinn Dagur Arnarsson hefur verið í burðarhlutverki hjá ÍBV í öllum þremur Íslandsmeistaratitlum karlaliðs félagsins í handknattleik á undanförnum níu árum. Þegar mest á reyndi í oddaleiknum í gær lagði Erlingur Richardsson þjálfari meistaraliðsins traust sitt á Dag. Hann stóð undir traustinu og var eðlilega í sjöunda himni þegar hann gaf sér tíma til að eiga orð við handbolta.is eftir leikinn, mitt í fögnuði með samherjum, fjölskyldu og stuðningsmönnum ÍBV á gólfi íþróttamiðstöðvarinnar í Vestmannaeyjum.
Magnaður stuðningur
„Það er ólýsanlegt að taka við bikarnum á heimavelli með fólkinu okkar. Stuðningurinn sem við höfum fengið í úrslitakeppninni er geggjaður. Um leið er maður þakklátur fyrir fólkið og fyrirtækin sem hafa staðið þétt við bakið á okkur með því að mæta alla leiki, heima og að heiman. Þetta er hreinlega ólýsanlegt,“ sagði Dagur sem sér fram á aðeins rólegri daga en úrslitakeppnin hefur átt hug hans allan undanfarnar vikur. Að baki eru 10 leikir á fáeinum vikum.
Fórum framúr okkar
Dagur viðurkennir að ÍBV-liðið hafi farið framúr sér eftir tvo fyrstu úrslitaleikina við Hauka.
„Þegar komið var í þriðja leik þá misstum við hausinn, ef svo má segja. Haukar gengu á lagið og svipað gerðist í fjórða leik þegar við vorum alltof værukærir í upphafi og misstum leikinn úr höndum okkar. Í kvöld sýndum við mátt okkar og megin. Fyrir utan að leggja allt í sölurnar í leiknum var markmið okkar að mæta til leiks með bros á vör og njóta leiksins með fólkinu okkar. Það tókst. Ég er ótrúlega stoltur af okkur að hafa klárað leikinn með sigri gegn hörkusterku liði Hauka,“ sagði Dagur.
Best að vinna heima
Dagur sagði að hver Íslandsmeistaratitlanna þriggja hefði sinn sjarma í minningunni. „Auðvitað er best að vinna titilinn á heimavelli. Það er er svo sætt að vinna með alla íbúa bæjarins með okkur. Þetta er yndislegt,“ sagði Dagur Arnarsson Íslandsmeistari með ÍBV í þriðja sinn.