Eftir sex sigurleiki í röð máttu Haukar bíta í það súra epli að tapa fyrir FH í uppgjöri Hafnarfjarðarliðanna í Kaplakrika í kvöld, 27:26, eftir að hafa verið þremur mörkum undir í hálfleik, 12:9.
Birgir Már Birgisson skoraði sigurmarkið fjórum sekúndum fyrir leikslok í frábærum handboltaleik í Olísdeild karla. Birkir Snær Steinsson hafði jafnað metin fyrir Hauka 25 sekúndum áður en leiktíminn var úti en Haukar léku manni færri. Mínútu fyrir leikslok kom Ómar Darri Sigurgeirsson FH yfir, 26:25. Var það í fyrsta sinn frá því að staðan var 2:1 að FH-ingar voru með yfirhöndina.
Haukar eru áfram efstir með 12 stig en Afturelding getur jafnað þá að stigum takist þeim að leggja Stjörnuna í Hekluhöllinni annað kvöld. FH fór a.m.k. í bili upp í 5. sæti deildarinnar með níu stig en þetta var annars sigur liðsins í röð.
Eftir slakan leik í fyrri hálfleik þá risu FH-ingar upp á afturfæturna í síðari hálfleik, ekki síst síðustu 20 mínúturnar. Þeir voru um skeið þremur mörkum undir, 16:13, og tveimur mönnum færri. Þegar þeir höfðu náð fullskipuðu liði á ný voru metin jöfnuðu. Eftir það var um afar jafnan og spennandi leik að ræða. Haukar voru heldur með frumkvæðið. Endaspretturinn var FH-inga þótt um skeið blésu ekki byrlega. Sjö og hálfri mínútu fyrir leikslok fékk Birkir Benediktsson beint rautt spjald fyrir brot á Frey Aronssyni. Leonharð Þorgeir Harðarson kom í stað Birkis og sýndi mikla áræðni.

Garðar Örn Sindrason átti stórleik hjá FH í síðari hálfleik og skoraði sjö mörk. Einnig var Ólafur Darri Sigurgeirsson afar öflugur. Jón Bjarni Ólafsson reyndist Haukum erfiður.
Mörk FH: Garðar Ingi Sindrason 8/3, Ómar Darri Sigurgeirsson 5, Símon Michael Guðjónsson 5/1, Birgir Már Birgisson 3, Jón Bjarni Ólafsson 2, Birkir Benediktsson 1, Bjarki Jóhannsson 1, Leonharð Þorgeir Harðarson 1.
Varin skot: Jón Þórarinn Þorsteinsson 8, 33,3% – Daníel Freyr Andrésson 2/1, 18,2%.
Mörk Hauka: Hergeir Grímsson 5/4, Skarphéðinn Ívar Einarsson 4, Birkir Snær Steinsson 4, Össur Haraldsson 4, Freyr Aronsson 4, Andri Fannar Elísson 3, Adam Haukur Baumruk 1, Jón Ómar Gíslason 1/1.
Varin skot: Aron Rafn Eðvarðsson 13/2, 35,1%.
Tölfræði leiksins hjá HBStatz.
Staðan og næstu leikir í Olísdeildum.



