Bjarki Már Elísson landsliðsmaður í handknattleik og samherjar hans í ungverska stórliðinu Veszprém unnu Ferencváros með 10 marka munu, 50:40, í vægast sagt skrautlegum handboltaleik á heimavelli í Veszprém í ungversku 1. deildinni í kvöld.
Lokatölurnar eru hreint lygilegar ekkert síður hálfleiksstaðan en hún var 25:21. Ferencváros tapaði fyrir Val, 43:39, í miklum markaleik í Origohöllinni fyrir nærri mánuði og þótti mörgum nóg um markafjöldan í þeirri viðureign.
Alls 90 mörk á 60 mínútum er hreint með ólíkindum enda er þetta með allra mestu markaleikjum í sögu síðari tíma deildarkeppni í Evrópu. Það sem meira er þarna voru ekki að leika áhugamannalið.
Eins og nærri má geta var hraðinn gríðarlegur í leiknum. Samkvæmt lýsingum af viðureigninni virðist ekkert lát hafa verið á spretti leikmanna beggja liða nema rétt á meðan hálfleikshléið stóð yfir. Skal engan undra þótt haft sé eftir Momir Ilic, þjálfara Veszprém, á heimasíðu félagsins að hann hafi verið óánægður með varnarleikinn.
Bjarki Már skorað fjögur mörk fyrir Veszprém en markahæsti maður liðsins var Svíinn Andreas Nilsson með 11 mörk.
Veszprém er efst í deildinni með 18 stig eftir níu leiki. Pick Szeged er næst á eftir með 16 stig. Ferencváros situr í sjötta sæti með 10 stig eftir níu viðureignir.