Íslenskir handknattleiksmenn voru ekki mikið að þvælast fyrir í Þýskalandi eftir að Páll Ólafsson, Sigurður Valur Sveinsson, Alfreð Gíslason, Kristján Arason og Atli Hilmarsson yfirgáfu svæðið í sumarbyrjun 1988. Einn af gömlu refunum var eftir; Bjarni Guðmundsson, sem lék með 2. deildarliðinu Wanne Eickel í Ruhr-héraðinu í Norður-Rín Westfalen, rétt norðan við Bochum. Það sáu margir eftir hinum vinsælu Íslendingum og sagði Stefán Hecker, landsliðsmarkvörður Þýskalands og meistaraliðs Essen 1986 og 1987, við íþróttablaðið Kicker í mars 1989, að félagið hefði aldrei átt að sleppa Alfreð. „Hann er einn besti handknattleiksmaður heims, sterkur í vörn og sókn.“
Bjarni lék eitt tímabil í „Bundesligunni“ eftir að gömlu landsliðsfélagarnir fóru 1988. Það var 1989-1990; eina tímabil Wanne Eickel í deildinni. Bjarni lék flesta leiki liðsins (26), skoraði flest mörk; alls 99 og skoraði flest mörk úr vítaköstum, 26. Hann á því enn þrjú met félagsins, sem koma til með að standa óhögguð um ókomna framtíð þar sem Wanne Eickel á ekki lengur lið í deildarkeppni.
Forráðamenn Essen mættu til Parísar til að ræða við Alfreð, sem stóð sig frábærlega í B-keppninni í febrúar 1989, til að reyna að fá hann aftur. Alfreð var ekki tilbúinn; vildi víkka sjóndeildarhringinn og ákvað að fara til Spánar (Bidasoa) eins og Kristján Arason (Teka) hafði gert og síðan lá leið margra Íslendinga til Spánar.
* Sigurður Valur, sem hafði leikið með Nettelstedt og Lemgo, ákvað 1989 að fara til Dortmund sem lék í 2. deild, en var ekki lengi í herbúðum liðsins; fór til Spánar og gerðist leikmaður með Atlético Madrid 1990.
* Konráð Olavson, KR, tók við kefli Sigga og lék með Dortmund 1990-1992.
* Héðinn Gilsson, FH, skrifaði undir tveggja ára samning við Düsseldorf eftir HM í Tékkóslóvakíu 1990.
Rotaði ljósmyndara!
Héðinn, sem var með mikinn stökkkraft og skotfastur, hóf að leika með Düsseldorf í „Bundesligunni“ tímabilið 1990-1991. Hann skoraði þá grimmt með langskotum og afrekaði það í byrjun mótsins að skjóta niður og rota ljósmyndara, sem mætti sérstaklega á leikinn til að „skjóta“ á Héðinn, sem var þekktur fyrir sín þrumuskot.
Héðinn lék með Düsseldorf fimm keppnistímabil (1990-1995). Hann ákvað að koma heim og leika með FH 1995-1996.
Júlíus Jónasson, Val, hafnaði boði frá Grosswallstad 1991 – valdi frekar að fara til Spánar, en Sigurður Bjarnason, Stjörnunni, tók tilboði frá félaginu.
Þá gekk Jón Kristjánsson, Val, til liðs við Shul sem var í austurhluta Þýskalands. Jóhann Ingi Gunnarsson sá um samning Jóns í júlí 1991, en í febrúar 1992 fékk Jón sig lausan frá Shul.
Óskar Ármannsson, FH, gerðist leikmaður með 2. deildarlðinu Ossweil.
Keppnistímabilið 1991-1992 í Þýskalandi var sögulegt vegna þess að þá var ákveðið að hafa „Bundesliguna“ með gamla fyrirkomulaginu, norður- og suðurriðli. Þetta var gert vegna sameiningu Austur- og Vestur-Þýskalands; Múrinn féll! Fjórtán lið voru í hvorum riðli og níu efstu liðin í riðlunum tryggðu sér rétt til að leika í 18 liða „Bundesligu“, en keppnistímabilið 1994-1995 var liðunum fækkað í 16 lið.
Kristján Arason tók við þjálfun Dormagen í „Bundesligunni“ 1994 og stjórnaði liðinu í tvö keppnistímabil. Þegar hann ætlaði heim 1996, fékk hann tveggja ára tilboð fá Wallau Massenheim, sem hann gat ekki hafnað.
Júlíus Jónasson gekk til liðs við Gummersbach 1994 eftir að hafa leikið á Spáni og í Frakklandi.
Miklar breytingar – landið fór að rísa!
Það hafði allt gengið á afturfótunum í sambandi við handknattleik í Þýskalandi eftir að ákveðið var að aðeins einn útlendingur mætti leika með hverju liði 1986. Þá var gengi þýska landsliðsins ekki gott; það komst ekki á Ólympíuleikana í Seoul 1988, féll niður í C-keppnina eftir slæmt gengi í B-keppninni í Frakklandi 1989 og komst ekki í HM 1990 í Tékkóslóvakíu. Áhuginn hrundi og mættu ekki margir áhorfendur á leiki í „Bundesligunni“ vegna þess að sterkir erlendir leikmenn, sem höfðu aðdráttarafl, fengu ekki aðgang að deildinni.
Útlitið var alls ekki gott, þar sem handknattleikur í Þýskalandi hafði byggst upp á sterkum handknattleiksliðum frá litlum bæjum og minni borgum. Handknattleikur gat ekki keppt við knattspyrnu í stóru borgunum. Handknattleikur var fjölskylduvænn og fóru leikir mikið fram síðdegis á laugardögum í litlum íþróttahúsum, þannig að fjölskyldur komu saman til að horfa á leiki. Eftir leikina var boðið upp á létta tónlist, mat og drykk. Leiktæki voru sett upp fyrir börnin í keppnissölum, þar sem þau léku sér undir stjórn leiðbeinenda á meðan foreldrar nutu veitinga og ræddu málin.
Það urðu miklar og jákvæðar breytingar fyrir handknattleikinn í Þýskalandi þegar Bosman-dómurinn féll í desember 1995. Þá var óheimilt að takmarka atvinnurétt meðlima Evrópusambandsins með því að ákveðinn fjöldi útlendinga léki með liðum. Gamla ákvæðið átti þá eingöngu við leikmenn utan evrópska efnahagssvæðisins.
Gríðalegt átak var gert í nýrri öflugri uppbyggingu á handknattleiknum. Það var ljóst að handknattleikur gat ekki keppt við knattspyrnu í lokaðri dagskrá í áskriftasjónvarpsstöðvum. Því voru gerðir samningar við ríkissjónvarpsstöðvar og handknattleikur sýndur í opinni dagskrá, þannig að allir gætu notið. Þá var mikið átak gert til að efla handknattleikskennslu í skólum samhliða að sýna leiki í opinni dagskrá. Leikmenn heimsóttu skóla til að kynna leikinn. Þetta átak bar fljótlega mikinn árangur.
Bosman-dómurinn opnaði dyrnar fyrir öfluga fjáröflun. Stuðningsaðilar komu með mikla peninga og félögin lögðu mikla áherslu á að fá til sín góða og vinsæla erlenda leikmenn, sem drógu að áhorfendur. Um leið var farið að fjalla meira um handknattleik í fjölmiðlum. Þegar markaðurinn opnaðist í Þýskalandi voru lið á Spáni og Frakklandi í fjárhagskröggum, sem varð til þess að þýsk lið gátu keypt þaðan sterka leikmenn. Nær allir leikmenn heimsmeistaraliðs Frakka léku um tíma í Þýskalandi. Yfir áttatíu snjallir útlendingar komu inn í deildina á stuttum tíma.
Þýskur handknattleikur komst á þann stall, sem hann var áður. Fjölmiðlar kepptust um að segja fréttir frá handknattleiknum. Fjölmargar sjónvarpsrásir fóru að sýna beint frá leikjum, en umgjörðin í kringum leikina kallaði á fleiri áhorfendur, sem vildu sjá sterkustu handknattleiksmenn heims í leik. Það varð til þess að liðin fóru að leika „stóru“ leiki sína í stærri höllum og breyting varð á allri umgjörð. Bikarúrslitahelgar urðu geysilega vinsælar.
13 Íslendingar
Þrettán Íslendingar voru í sviðsljósinu í Þýskalandi keppnistímabilið 1996-1997. Sigurður Bjarnason og Héðinn Gilsson fóru aftur út; Sigurður, sem hafði leikið með Grosswallstad þrjú keppnistímabil 1991-1994, áður en hann fór heim og lék með Stjörnunni 1994-1996, fór til Dankersen og Héðinn til Fredenbach.
* Þá fór Patrekur Jóhannesson, KA, til liðs við Essen. Það var Alfreð Gíslason, þjálfari Patreks, sem aðstoðaði hann að ganga frá tveggja ára samningi.
* Róbert Sighvatsson, Aftureldingu, gerðist leikmaður með Schutterwald.
* Júlíus Jónasson hafði verið í herbúðum Gummersbach frá 1994.
* Viggó Sigurðsson gerðist þjálfari 2. deildarliðsins Wuppertal og nýir leikmenn liðsins voru Valsmennirnir Ólafur Stefánsson og Dagur Sigurðsson.
* Jason Ólafsson, Aftureldingu, lék með 2. deildarliðinu Leutershausen og Magnús Sigurðsson, Stjörnunni, var í herbúðum 2. deildarliðsins Willsatt.
* Þeir Júlíus Gunnarsson, Val, og Hilmar Bjarnason, Fram, gerðust leikmennn 3. deildarliðsins Hildesheim.
Kristján leystur frá störfum
Kristján Arason, sem gerði tveggja ára þjálfarasamning við Wallau Massenheim 1996, var leystur frá störfum í janúar 1997, eftir að liðið hafði tapað mörgum dýrmætum stigum og fallið út úr bikarkeppninni. Fyrir jólatörnina vann liðið sjö leiki í röð og gerði eitt jafntefli. „Það er leiðinlegt að vera rekinn. Þetta er það sem þjálfarar verða að kyngja, þegar á móti blæs. Sumir segja að enginn verði þjálfari fyrr en búið sé að reka hann að minnsta kosti einu sinni. Að öllu gamni slepptu þá er þetta ákveðin reynsla,“ sagði Krisján við Morgunblaðið.
Wuppertal-ævintýrið
Það vakti mikla athygli í Þýskalandi, þegar þrír Íslendingar komu til 2. deildarliðs Wuppertal fyrir keppnistímabilið 1996-1997; Ólafur Stefánsson, Dagur Sigurðsson og þjálfarinn Viggó Sigurðsson, sem hafði verið orðaður við Lemgo og Bad Schwartau. Þá bættist Rússinn Dimitri Filippow, sem lék undir stjórn Viggós hjá Stjörnunni, einnig í hópinn. Um tíma voru línumaðurinn Gunnar Beinteinsson, FH, og markvörðurinn Guðmundur Hrafnkelsson, Val, einnig orðaðir við Wuppertal.
Þetta var annað keppnistímabil sameinað liðs Wuppertal-liðanna; Wuppertal og Wuppertaler; og stefnan tekin á „Bundesliguna.“ Liðið var nokkuð öflugt. Fyrir utan nýliðana Ólaf, Dag og Filippow kom pólski landsliðsmarkvörðurinn Mariusz Dudek frá Nettelsted, en fyrir voru rússneski línumaðurinn Michail Wassiljew og þýski landsliðsmaðurinn Stefan Schöne, svo einhverjir séu nefndir. Wuppertal hafði mest náð þriðja sæti í 2. deild tímabilið 1991-1992, en hafnaði í 7. sæti áður en Viggó tók við liðinu.
Wuppertal háði harða baráttu um efsta sætið í norðurriðli 2. deildarkeppninnar. Þegar fjórar umferðir voru eftir og viðureign Wuppertal og Bad Schwartau 22. mars í sjónmáli, ákvað Morgunblaðið að senda blaðamann til Wuppertal til að taka púlsinn á Íslendingunum sem voru að gera góða hluti með liðinu, sem var með eins stigs forskot þegar fjórar umferðir voru eftir. Það var ákveðið að pistlahöfundur færi til Lúxemborgar og þaðan á bílaleigubíl til Wuppertal.
Blaðamaður í stóru hlutverki
Fyrir leikinn kynnti Viggó mig fyrir forráðamönnum Wuppertal og sjónvarpsmanni, sem sá um íþróttafréttir á Wuppertal-svæðinu, fyrir sunnan Essen. Það gerði Viggó áður en hann hélt fund með fjölmörgum stuðningsaðilum Wuppertal, er hann sagði þeim frá hvernig hann myndi leggja upp leikinn fyrir leikmenn sína.
Þegar fundinum lauk og Viggó farinn til leikmanna sinna, kom sjónvarpsmaðurinn til mín. Hann sagðist hafa séð nýjan flöt á umgjörð leiksins og spurði mig hvort ég vildi taka þátt í hugmynd hans.
Bað hann mig að fara út í bíl minn; fara á honum út af stæðinu og koma síðan aftur í stæðið. Sjónvarpsmyndavél var á bílnum þegar ég renndi aftur í hlað. Síðan fylgdi vélin mér er ég gekk að íþróttahúsinu og inn. Þar var tekið á móti mér og einn starfsmaður vísaði mér til sætis.
Það kom mér síðan mikið á óvart; þegar búið var að kynna liðin, að heyra nafn mitt lesið upp í hátalarakerfinu og blaðamaður, mér á hægri hönd, sagði mér að standa upp. Þulur leiksins sagði áhorfendum að íslenskur blaðamaður væri sérstaklega kominn frá Íslandi; frá stærsta blaði landsins, til að skrifa um Wuppertal og Íslendingana í herbúðum liðsins. Bað hann áhorfendur að bjóða blaðamanninn velkominn með því að klappa fyrir honum og Morgunblaðinu. Það stóð ekki á áhorfendum, þeir klöppuðu og ráku upp fagnaðarhróp. Ég gat ekki annað en þakkað fyrir mig með því að veifa til þeirra.
Eftir leikinn, sem lauk með jafntefli 19:19, var ég kallaður í stutt viðtal og sjónvarpsmaðurinn lauk spjallinu og „þætti“ mínum með því að senda kveðjur með mér til Íslands!
Leikurinn var mikill spennuleikur. Áhorfendum leist ekkert á blikuna er staðan var 17:19 fyrir gestina og einum sterkasta varnarmanni Wuppertal vísað af velli. Með miklu harðfylgi og sterkri vörn náðu heimamenn að jafna 19:19. Dimitri Filippov skoraði markið úr vítakasti þegar fjórar mínútur voru eftir og meira var ekki skorað þrátt fyrir mikla baráttu og spennu. Wuppertal fékk aftur vítakast þegar rúmar tvær mínútur voru eftir, Filipov fór að vítalínunni, en skot hans var varið. Þegar þrjár sekúndur voru til leiksloka voru tafir dæmdar á gestina, sem vildu halda jafnteflinu og treystu á að sterkt lið Düsseldorf myndu klekkja á Wuppertal.
Wuppertal hélt eins stigs forskoti sínu, þegar þrjár umferðir voru eftir. Næsti leikur liðsins var gegn Düsseldorf, sem var í þriðja sæti. Leikmenn Bad Schwartau sögðust leggja fimmtán þúsund mörk, um 360 þús. krónur, inn á leikmannasjóð Düsseldorf, ef liðið næði að leggja Wuppertal að velli. Svo varð ekki, Wuppertal vann 18:16 og síðan tvo lokaleiki sína og fór beint upp í „Bundesliguna.“ Bad Schwartau fór í aukaleiki um sæti í deildinni og náði ekki að fara upp.
Þegar ég kom á hótel mitt, Golfhotel Vesper, fyrir utan Wuppertal, eftir leikinn og gekk inn í veitingastað hótelsins, kom þjónn til mín; buktaði sig og beygði. „Kæri Íslendingur. Ég sá þig í sjónvarpinu áðan!“
Þegar ég hringdi eftir kvöldverðinn í Viggó, sem fór strax heim eftir leikinn til að horfa á þátt um handknattleik í sjónvarpinu, sagði hann: „Það var ekki mikið sýnt frá leiknum í sjónvarpinu. Þú varst að mestu í sviðsljósinu; Stalst aðalhlutverkinu!“
Ég bað Viggó afsökunar: „Fyrirgefðu vinur. Það ætlaði ég ekki að gera, en lyfti ég ekki umgjörðinni upp? Var þetta ekki aðeins stutt og skemmtileg saga; smá krydd í umgjörðina. Sjónvarpsmaðurinn vildi hafa þetta svona; að lögð væri áhersla á að Íslendingar fylgdust vel með Wuppertal, sem væri liðið þeirra. Ég lét hann ráða ferðinni. Ég skal ekki gera þetta aftur!“ Við Viggó hlógum. Ég tók viðtal við hann daginn eftir; einnig Ólaf og Dag.
Íslendingar alltaf vinsælir
Þegar Þjóðverjar náðu að rífa handknattleikinn aftur upp hjá sér, kom strax í ljós að íslenskir handknattleiksmenn voru eftirsóttir og vinsælir. Í næsta pistli skoðum við nánar:
* Geir Sveinsson og Valdimar Grímsson til Wuppertal.
* Alfreð Gíslason aftur til Þýskalands – sem þjálfari Hameln.
* Alfreð og Ólafur Stefánsson til Magdeburg – meistarar!
* Viggó í mikilli baráttu við Wuppertal.
* Guðjón Valur Sigurðsson á ferðinni.
* 17 Íslendingar í Bundesligunni 2009, skömmu síðar voru þeir fimm!
Auf Wiedersehn
Sigmundur Ó. Steinarsson.
Fyrri greinar Sigmundar sem hann hefur skrifað fyrir handbolta.is:
Svana fyrst eftir „teinunum“ í Þýskalandi
„Furan“ og „rauðhærði villimaðurinn“
Geir himnasending fyrir Göppingen
Axel og Kristbjörg – meistarahjón!
„Umbarnir“ voru ekki vaknaðir!
Axel með þýðingamesta vítakast Þýskalands!
Kókkassakast styrkti skothörku þeirra!
Íslendingar komu, sáu og sigruðu