- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -

Brest lagði stein í götu Györ

Leikmenn Brest fagna eftir að hafa unnið sögulegan sigur á Györ. Mynd/EPA
- Auglýsing -

Það var boðið uppá hágæða handbolta þegar að Györ og Brest áttust við í fyrri undanúrslitaleiknum í Meistaradeild kvenna þar sem að Brest hafði betur, 27-25, eftir vítakastkeppni eftir að staðan hafði verið 20-20 eftir venjulegan leiktíma og 23-23 eftir framlengingu. Brest náði þar með að tryggja sér sæti í úrslitaleiknum. Györ spilar hins vegar um bronsverðlaun á morgun. Györ hafði fyrir leikinn í dag leikið 55 leiki án taps í Meistaradeild kvenna.

 Mikið jafnræði var með liðunum í upphafi leiks og eftir um 12 mínútna leik var staðan 4-4. Þá náðu þær frönsku að þétta raðirnar í varnarleiknum hjá sér og skoruðu þrjú mörk í röð og breyttu stöðunni í 7-4. Á þessum tíma gekk Györ illa að finna svör í sóknarleiknum hjá sér og Brest hélt frumkvæðinu og fóru með þriggja marka forystu inní hálfleikinn 11-8.

Það var ljóst í upphafi seinni hálfleiks að Ambros Martin þjálfari ungverska liðsins hafði farið vel yfir málin með sínum stúlkum því þær mættu mun ákveðnari til leiks. Hann ákvað að breyta aðeins til í varnarleiknum hjá þeim ásamt því að setja Silju Solberg í markið og það hjálpaði þeim ungversku að vinna sig hægt og rólega aftur inní leikinn.

Þegar um 13 mínútur voru liðnar af seinni hálfleik náði Györ að jafna leikinn 15-15 og tveimur mínútum seinna voru þær komnar yfir 17-15. En þær frönsku neituðu að gefast upp og þegar um fimm mínútur voru til leiksloka náðu þær að jafna metin 18-18 og áttu svo möguleika að komast í forystu en Solberg kom í veg fyrir það. 

Lokamínútur leiksins voru æsispennandi en þegar um ein og hálf mínúta var eftir af leiknum  var dæmt sóknarbrot á ungverska liðið í stöðunni 20-19 og þær frönsku brunuðu upp í hraðaupphlaup en Silja Solberg varði frábærlega frá þeim frönsku og kom í veg fyrir að þær næðu að jafna metin. Þegar um 40 sekúndur voru eftir fékk Anita Görbicz tækifæri til að tryggja Györ sigurinn úr vítakasti en Sandra Toft markvörður Brest gerði sér lítið fyrir og varði vítakastið. Þjálfari Brest tók leikhlé þegar 30 sekúndur voru eftir og lagði upp lokasóknina fyrir Brest, þar sem að Djurdjina Jaukovic náði að skora á línunni og jafna leikinn í 20-20 þegar 13 sekúndur voru eftir af leiknum. Györ brunaði upp í sókn en náðu ekki að koma skoti á markið og því þurfti að framlengja leikinn.

Isabelle Gullden leikmaður Brest sækir að Anne Matte Hansen og Beatrice Edwige í undanúrslitaleiknum í dag. Mynd/EPA

Spennan hélt áfram í framlengingunni þar sem að markmenn beggja liða voru í aðalhlutverki en þær Sandra Toft markvörður Brest og Silja Solberg markvörður Györ vörðu nánast allt sem kom að marki þeirra en þó náðu bæði lið að skora tvö mörk hvort um sig og staðan 22-22 í hálfleik á framlengingunni. Þær stöllur í markinu héldu uppteknum hætti í seinni hálfleiknum en það tók liðin þrjár og hálfa mínútu að ná að brjóta ísinn en það gerði Alicia Toublanc fyrir Brest og kom þeim yfir 23-22 en stuttu seinna náði Györ að jafna metin 23-23 þegar að Veronica Kristiansen skoraði úr vítakasti. Györ fékk svo möguleika á því að skora sigurmarkið þegar um 30 sekúndur voru eftir en Sandra Toft varði enn eitt skotið og því þurfti vítakastkeppni til þess að knýja fram sigurvegara.

Brest hafði betur í vítakeppni þar sem liðið skoraði 4 mörk gegn 2 og rufu þar með 55 leikja sigurgöngu ungverska liðsins í Meistardeildinni.

Györ 25-27 Brest (8-11) (20-20) (23-23)
Markaskor Györ:
Veronica Kristiansen 8, Kari Brattset 3, Stine Bredal Oftedal 3, Eduarda Amorim 3, Anita Görbicz 2, Csenge Fodor 2, Estelle Nze Minko 2, Dorottya Faluvégi 2.
Varin skot: Silje Solberg 10, Amandine Leynaud 3, Laura Glauser 1.
Markaskor Brest:
Ana Gros 9, Djurdjina Jaukovic 5, Sladjana Pop-Lazic 4, Alicia Toublanc 3, Isabelle Gulldén 3, Kalidiatou Niakate 2, Pauline Coatanea 1.
Varin skot: Sandra Toft 12, Cleopatre Darleux 5.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -