Bruno Bernat sá til þess að KA komst í 16-liða úrslit Poweradebikarsins í handknattleik karla í kvöld eftir framlengdan spennuleik við Víking í KA-heimilinu, 33:32. Víkingar skoruðu þrjú síðustu mörk framlengingarinnar á 90 sekúndum og fengu lokasóknina ofan á annað. Bruno markvörður sá til þess að ekki þurfti að grípa til annarrar framlengingar.
KA er þar með komið í sextán liða úrslit eins og Fjölnir, Fram og HK sem einnig unnu leiki sína í dag.
Víkingar virtust vera með tapaðan leik 20 mínútum fyrir leikslok þegar þeir voru sjö mörkum undir, 22:15. Annað kom á daginn. Þeir sóttu í sig veðrið og munaði þar ekki hvað síst um stórleik Jóhanns Reynis Gunnlaugssonar sem skoraði hvert markið á fætur öðru auk þess sem Daníel Andri Valtýsson varði vel í markinu.
Jafnt og þétt unnu Víkingar niður forskot KA-liðsins. Fór svo að Jóhann Reynir jafnaði metin, 29:29. Þótt bæði lið ættu möguleika á að skora á síðustu mínútu venjulegs leiktíma tókst það ekki. Leikhlé beggja þjálfara á lokamínútunni breyttu heldur ekki stöðunni.
KA skoraði fjögur fyrstu mörk framlengingarinnar og virtust vera að sigla heim öruggum sigri í framlengingunni þegar Víkingar komust allt í einu á bragðið eftir að hafa ekki skorað mark í rúmar átta mínútur í framlengingu. Mikið pat komst á leik KA-liðsins og Víkingar skoruðu þrjú mörk á skömmum tíma. Þeir sluppu fyrir horn og í 16-liða úrslit en tæpara gat það varla verið.
KA – Víkingur 33:32 (29:29) (16:12).
Mörk KA: Jóhann Geir Sævarsson 7, Ott Varik 7, Einar Rafn Eiðsson 5/4, Einar Birgir Stefánsson 3, Skarphéðinn Ívar Einarsson 3, Patrekur Stefánsson 2, Jens Bragi Bergþórsson 2.
Varin skot: Bruno Bernat 14/1, 33,3% – Nicolai Horntvedt Kristensen 1, 14,3%.
Mörk Víkings: Jóhann Reynir Gunnlaugsson 14/2, Styrmir Sigurðarson 3, Agnar Ingi Rúnarsson 3, Jón Hjálmarsson 2, Igor Mrsulja 2, Brynjar Jökull Guðmundsson 2, Sigurður Páll Matthíasson 1, Þorfinnur Máni Björnsson 1, Arnar Steinn Arnarsson 1.
Varin skot: Daníel Andri Valtýsson 11, 28,2% – Hinrik Örn Jóhannsson 0.
Tengt efni:
Fram, HK og Fjölnir áfram með í bikarkeppninni