Stjórn handknattleiksdeildar ÍR hefur samið við Brynhildi Bergmann Kjartansdóttur um að taka að sér starf yfirþjálfara kvennaflokka. Brynhildur, sem er öllum hnútum kunnug innan félagsins, mun fá það hlutverk að huga að áframhaldandi uppbyggingu yngri flokkana og efla umgjörð þeirra, segir í tilkynningu deildarinnar.
Brynhildur er uppalin ÍR-ingur, og var meðal leikmanna þegar meistaraflokkur kvenna var aftur settur á laggirnar fyrir um áratug síðan. Hún spilaði með öllum yngri landsliðum Íslands á sínum tíma. Henni er hjartans mál að kvennastarfið í ÍR sé öflugt og smellpassar hún því inn í nýja starfið.
Vilja fjölga iðkendum
„Ég er himinlifandi yfir því að Brynhildur hafi tekið slaginn með okkur í vetur. Hún hefur verið öflug í kvennastarfinu undanfarin ár meðal annars í kringum meistaraflokk kvenna þar sem hún hefur verið hluti af meistaraflokksráði. Ég er viss um að með tilkomu Brynhildar náum við að fylgja flokkunum okkar vel eftir og bæta enn frekar í iðkendafjöldann,“ er haft eftir Elínu Freyju Eggertsdóttur formanni handknattleiksdeildar ÍR í tilkynningu.