- Auglýsing -
- Auglýsing -

Búast við allt að 500 Íslendingum í Búdapest

Nokkur hundruð Íslendingar fylgjast með landsliðinu í Búdapest. Mynd/EPA

Búist er við að nærri 500 Íslendingar styðji við bakið á landsliðinu í handknattleik karla þegar það leikur á Evrópumeistaramótinu í Ungverjalandi. Fyrsti leikur liðsins verður gegn Portúgal 14. janúar í Búdapest eins og aðrir leikir liðsins á mótinu.

Róbert Geir Gíslason, framkvæmdastjóri HSÍ, segir í samtali við Morgunblaðið í dag að HSÍ hafi selt um 360 miða á leikina þrjá sem íslenska landsliðið leikur í riðlakeppni mótsins. Til viðbótar veit hann til að hópar fólks hafi orðið sér út um aðgöngumiða með öðrum hætti eins og í gegnum miðsölukerfi mótsins á netinu. „Ég myndi halda að það væri tæplega 500 manns frá Íslandi sem eiga miða á mótið,“ er haft eftir Róbert Geir í Morgunblaðinu.


Lítið hefur verið um afbókanir á miðum að sögn Róberts Geir. Vaxandi útbreiðsla kórónuveirunnar virðist ekki hafa dregið úr áhuga Íslendinga á fara til Búdapest og styðja við bakið á landsliðinu.


Handbolti.is hefur upplýsingar um að Sérsveitin, stuðningsmannasveit íslensku landsliðanna í handknattleik, ætli ekki að slá slöku við á meðan á EM stendur yfir. Vaskur hópur á vegum sveitarinnar verður í Búdapest og heldur uppi stemningu leikjunum eins og þeirra er von og vísa.

Leikir íslenska landsliðsins á EM:
14. janúar:
19.30 Portúgal – Ísland.
16. janúar:
19.30 Ísland – Holland.
18. janúar:
17.00 Ísland – Ungverjaland.


Tvö lið fara áfram úr riðlinum í milliriðil.

Allir leikir Íslands á mótinu verða sendir út hjá RÚV. Handbolti.is verður í Búdapest til að flytja fregnir af gangi mála í máli og myndum.

- Auglýsing -
- Auglýsing -

Nýjustu fréttir

- Auglýsing -