Síðustu leikir Olísdeildar karla í handknattleik fara fram í kvöld. Sex viðureignir sem allar hefjast klukkan 19.30. Íslandsmeistarar FH sitja í efsta sæti deildarinnar með 33 stig. Valur er stigi á eftir og getur orðið deildarmeistari með sigri á Haukum ef FH gerir jafntefli við ÍR eða tapar. FH stendur höllum fæti í innbyrðis viðureignum við Val. Vinni FH leikinn við ÍR í Kaplakrika verður FH deildarmeistari í Olísdeild karla annað árið í röð.
- Ef svo fer að FH og Valur tapa bæði sínum leikjum og Fram vinnur þá jafnar Fram FH að stigum en verður ekki deildarmeistari vegna þess að FH vann báða leiki liðanna í vetur.
- Komi sú ólíklega staða upp að FH, Valur og Fram verði jöfn að stigum þá verður Valur deildarmeistari. Valur hefur besta stöðu þegar úrslit innbyrðisleikja liðanna þriggja er borin saman.
- Tapi Fram fyrir Stjörnunni og Afturelding vinnur Gróttu hrifsar Afturelding þriðja sætið af Fram vegna úrslita innbyrðisleikja. Afturelding vann Fram að Varmá, 34:29, en tapaði með tveggja marka mun í Lambhagahöllinni, 34:32.
- Hugsanlega geta orðið sætaskipti á milli ÍBV og Stjörnunnar í sjötta og sjöunda sæti. Einu stigi munar á liðunum ÍBV í vil.
- Grótta getur ennþá bjargað sér úr umspilssætinu með sigri á Aftureldingu, að því tilskyldu að ÍR kræki ekki í stig í Kaplakrika. Grótta nær þá 10. sætinu á betri innbyrðisstöðu gegn ÍR (sigur 33:29, og jafntefli, 29:29). ÍR færi þá í umspilssætið og mætti Herði í undanúrslitum. Ef Grótta tapar fyrir Aftureldingu eða gerir jafntefli verður 11. sætið Gróttu og þar með umspilssætið.
- Grótta getur aldrei haft sætaskipti við KA hvernig sem fer vegna lakari stöðu í innbyrðisviðureignum.
- Fjölnir er þegar fallinn í Grill 66-deildina.
- Ráðgert er að úrslitakeppni Olísdeildar karla hefjist föstudaginn 4. apríl. Daginn eftir stendur til að umspilið hefjist. Síðasta umferð Grill 66-deildar karla verður á laugardaginn.
Leikir kvöldsins
Olísdeild karla, 22. og síðasta umferð:
Kaplakriki: FH – ÍR, kl. 19.30.
Vestmannaeyjar: ÍBV – HK, kl. 19.30.
N1-höllin: Valur – Haukar, kl. 19.30.
Hertzhöllin: Grótta – Afturelding, kl. 19.30.
Hekluhöllin: Stjarnan – Fram, kl. 19.30.
Fjölnishöllin: Fjölnir – KA, kl. 19.30.
- Allir leikirnir verða sendir úr á Handboltapassanum. Auk þess verður viðureign FH og ÍR send út í opinni dagskrá í sjónvarpi Símans.
