Leikið verður til undanúrslita í Poweradebikar kvenna í handknattleik á Ásvöllum í kvöld. Fyrri viðureignin hefst klukkan 18 en sú síðari klukkan 20.15.
Reykjavíkurveldin, Fram og Valur eigast við í fyrri leiknum og verður um að ræða 30. undanúrslitaleik hvors félags í bikarkeppni kvenna í handknattleik. Þar af hefur Valur verið í undanúrslitum sjö ár í röð.
Síðast mættust Fram og Valur í undanúrslitum bikarkeppninnar árið 2021. Fram hafði betur, 22:19. Árið eftir hafði Valur betur í úrslitaleik við Fram, 25:19.
Eins og áður segir er kvennalið frá Fram að leika í 30. sinn í undanúrslitum. Fyrsti leikurinn var gegn FH í fyrstu bikarkeppninni í kvennaflokki. Fram vann, 13:9.
Valur lék fyrst í undanúrslitum bikarkeppni kvenna 1977 og tapaði fyrir KR, 13:12.
Í síðari leik undanúrslita í kvöld eigast við Grótta og Haukar.
Grótta hefur þrettán sinnum komist í undanúrslit bikarkeppninnar, annað hvort eingöngu undir eigin merki eða í samfloti með KR, alls fimm sinnum. Fyrsti leikur Gróttu var gegn Val 1993. Grótta tapaði naumlega, 18:17. Síðast var Grótta í undanúrslitum fyrir níu árum og lagði þá Hauka, 30:29.
Haukar eiga 18 undanúrslitaleiki að baki í kvennaflokki. Sá fyrsti var gegn Ármanni árið 1977. Ármenningar höfðu betur, 20:12
Síðast voru Haukar í undanúrslitum bikarkeppninnar 2023. Mætti liðið Val og tapaði 28:19.
Poweradebikar kvenna, undanúrslit:
Ásvellir: Fram – Valur, kl. 18.
Ásvellir: Grótta – Haukar, kl. 20.15.
– Báðir leikir verða sendir út á RÚV2.
Miðasala er á stubb.is.