Eftir hörkuspennandi viðureign ÍR og Stjörnunnar í átta liða úrslitum Poweradebikars karla í handknattleik í gærkvöld verður áfram haldið í kvöld með tveimur leikjum.
KA fær Aftureldingu í heimsókn í KA-heimilið í annað sinn á fáeinum dögum. Liðin skildu jöfn á laugardagskvöld í KA-heimilinu í síðasta leik ársins í Olísdeildinni. Í kvöld verður jafntefli ekki tekið gilt heldur verður leikið til þrautar, ef til þess kemur. Flautað verður til leiks í KA-heimilinu klukkan 19.
Hálftíma síðar brestur á með Reykjavíkurslag í Lambhagahöllinni í Úlfarsárdal þegar leikmenn Fram og Vals mætast. Síðasta viðureign liðanna á þessum stað lauk með jafntefli, 31:31, í lok október. Eins og á Akureyri verður allt lagt í sölurnar í Lambhagahöllinni. Sæti í undanúrslitum er í boði auk þess sem Valur er bikarmeistari frá síðustu leiktíð.
Viðtækjaeigendur geta fylgst með viðureigninni í KA-heimilinu á Handboltapassanum. Leikurinn í Úlfarsárdal verður sendur út á vegum RÚV okkar allra.
Er enn á huldu
Enn er á huldu hvenær fjórða og síðasta viðureign átta liða úrslita fer fram. Alltént er ljóst að Íslandsmeistarar FH taka þátt í þeim slag en hvort FH mætir ÍBV eða Haukum bíður dóms áfrýjunardómstóls HSÍ.
Leikir kvöldsins
Poweradebikar karla, 8-liða úrslit:
KA-heimilið: KA – Afturelding, kl. 19 – Handboltapassinn.
Lambhagahöllin: Fram – Valur, kl. 19.30 – RÚV2.