Einn leikur fer fram á Íslandsmóti meistaraflokka í handknattleik í kvöld, miðvikudag. Í 4. umferð Olísdeildar kvenna sækja nýliðar ÍR, sem hafa gert það gott, Íslandsmeistara Vals heim í Origohöllina. Stefnt er á að leikurinn hefjist klukkan 19.30.
Valur er með fullt hús stiga, sex, eftir þrjá leiki. ÍR-ingar hafa fjögur stig að loknum tveimur sigurleikjum og einu tapi í upphafsleikjunum þremur.
Leiknum er flýtt vegna ferðar Vals til Rúmeníu hvar liðið leikur við HC Dunarea Braila öðru sinni á laugardaginn í undankeppni Evrópudeildarinnar.
Fjórða umferð Olísdeildar kvenna hófst á mánudaginn með viðureign ÍBV og Aftureldingar sem einnig var flýtt vegna Evrópuleikja ÍBV í Portúgal á föstudag og laugardag.
Leikur kvöldsins – Olísdeild kvenna
Origohöllin: Valur – ÍR, kl 19.30.
Staðan og næstu leikir í Olísdeildum.
Þeir sem ekki komast í Origohöllina til að hvetja liðin til dáða eiga þess kost að fylgjast með leiknum á sjónvarpsrás Símans.
