Dagur Sigurðsson, þjálfari króatíska karlalandsliðsins í handknattleik, kvaðst ánægðari með frammistöðu lærisveina sinna í 33:27 tapi fyrir lærisveinum Alfreðs Gíslasonar í Þýskalandi í Hannover í gærkvöldi en í þriggja marka tapi fyrir sömu andstæðingum í Zagreb síðastliðið fimmtudagskvöld.
Króatía tapaði leiknum í Zagreb 29:32 og sagði Dagur við króatíska miðla eftir þann leik að það hafi til að mynda verið „glæpsamlegt“ hversu lengi hans menn hafi verið að skila sér til baka í vörnina.
Dagur: „Þetta var glæpsamlegt“
Eins og tvö ólík lið
Hljóðið var betra í Degi eftir leikinn í Þýskalandi í gærkvöldi.
„Ég er ánægðari en ég var eftir fyrri leikinn. Í leikjunum tveimur litum við út fyrir að vera tvö gjörólík lið. Vegna fjölda meiðsla þurftum við að gefa leikmönnum sem höfðu ekki spilað lengi tækifæri til þess að fá tilfinningu fyrir leiknum aftur.
Það var mjög erfitt gegn andstæðingi sem þessum. Það vantaði upp á samræmi og einbeitingu og það mun taka smá tíma. Við höldum áfram að vinna í að bæta okkur,“ sagði hann við króatíska miðilinn Tportal.
Króatía er í E-riðli á EM 2026 sem leikinn verður í Malmö í Svíþjóð. Fyrsti leikur liðsins á mótinu verður gegn Georgíu á laugardag. Í riðlinum eru einnig Svíþjóð og Holland.
EM karla 2026 – leikdagar, leikstaðir, leiktímar




