Dagur Sigurðsson, þjálfari Króatíu, viðurkenndi að Þýskaland hafi verið sterkari aðilinn þegar liðin áttust við í Jyske Bank Boxen í Herning í Danmörku í kvöld.
Þýskaland vann 31:28, var með yfirhöndina allan síðari hálfleikinn og komst mest sjö mörkum yfir í honum.
Alfreð skákaði Degi og Þjóðverjar í úrslit
„Þýskaland spilaði mjög vel í leiknum. Við spiluðum mjög vel í fyrri hálfleik. Það var of mikill munur á frammistöðu markvarðanna,“ sagði Dagur í samtali við Handknattleikssamband Evrópu, EHF, eftir leikinn.
Andreas Wolff varði 13 skot í marki Þýskalands en Dominik Kuzmanovic varði sjö hjá Króatíu og Matej Mandic aðeins eitt.
Sjö á sex virkaði ekki sem skyldi
„Þegar Kuzmanovic kom inn á náðum við að setja þá undir pressu. En þeir eru tveir ungir markverðir, þeir munu læra af þessum leik. Í síðari hálfleik var þetta svolítil ringulreið.
Við þurftum að skipta fleiri leikmönnum í vörn og sókn og sjö á sex kerfið virkaði ekki sérlega vel. Fyrri hálfleikur var frábær. Við náðum að stýra tempóinu þá en svo varð þetta erfitt þegar við vorum alltaf nokkrum mörkum undir,“ sagði Dagur einnig.



