Dagur Sigurðsson, þjálfari króatíska karlalandsliðsins í handknattleik, var ómyrkur í máli eftir 29:32 tap fyrir lærisveinum Alfreðs Gíslasonar í Þýskalandi í Zagreb í Króatíu í vináttulandsleik í gærkvöldi.
Króatía og Þýskaland undirbúa sig af kappi fyrir Evrópumótið í Danmörku, Noregi og Svíþjóð og mætast öðru sinni í vináttuleik á sunnudag, þá í Hannover í Þýskalandi.
Alfreð hafði betur gegn Degi í Zagreb
Alveg hræðilegt
„Ég er ekki ánægður með úrslitin. Það voru ákveðnir hlutir í frammistöðu okkar sem voru ekki nógu góðir. Verst var hvernig við hlupum til baka í vörnina.
Við vorum mjög opnir og vorum ekki nógu fljótir til baka. Það var glæpsamlegt, alveg hræðilegt. Stærstur hluti markanna sem við fengum á okkur komu i gegnum miðja vörnina. Við vorum ekki nógu þéttir,“ sagði Dagur í samtali við króatíska fréttamiðilinn tportal.
Lykilmaður Dags missir af Evrópumótinu
Ekki sérlega góðir í sókn heldur
„Ég óska Þýskalandi til hamingju með sigurinn. Þetta var góð prófraun fyrir bæði lið. Við gerðum mörg mistök, ég var óánægður með hvernig við hlupum til baka og við vorum ekki sérlega góðir í sókninni heldur. Við getum bætt okkur mikið.
Ég er hæstánægður með að vera kominn aftur í Arena Zagreb og fengum einu sinni sem áður að njóta svona góðs stuðnings frá stuðningsfólki okkar. Ég þakka fyrir það og hlakka til leiksins í Hannover,“ sagði Dagur enn fremur.



