Dana Björg Guðmundsdóttir landsliðskona í handknattleik og leikamaður Volda í Noregi var valin í úrvalslið marsmánaðar í næsta efstu deild kvenna í handknattleik. Keppni lauk í deildinni fyrir viku. Framundan hjá Volda er umspil um sæti í úrvalsdeildinni.
Dana Björg, sem er á sinni þriðju leiktíð með Volda, var ekki aðeins öflug með Voldaliðinu í mars heldur allt keppnistímabilið.
Hún skoraði 153 mörk í 25 leikum og varð fimmta markahæst í deildinni og sú af leikmönnum Volda sem skoraði oftast. Dana Björg, sem lék sína fyrstu landsleiki gegn pólska landsliðinu í október á síðasa ári, skoraði 6,1 mark að jafnaði í leik með Volda í vetur.
Umspilið er á næstu grösum
Volda tapaði fyrir Fjellhammer í úrslitaleik liðanna um efsta sæti næst efstu deildar fyrir viku. Þar af leiðandi kemur það í hlut Volda að taka þátt í umspili um sæti í úrvalsdeildinni en Fjellhammer fer rakleitt upp.
Undanúrslit umspilsins hefjast 23. apríl. Volda sækir þá Haslum heim. Fjórum dögum síðar mætast liðin á ný í Volda. Romerike Ravens og Aker eigast við í hinni rimmu undanúrslita. Sigurliðin í undanúrslitunum mætast í úrslitaleikjum um sæti í úrvalsdeildinni.
Romerike Ravens og Haslum voru í úrvalsdeildinni í vetur.
